Gregg Ryder fór af stað með látum í starfi hjá KR, hann vann tvo fyrstu leikinna í Bestu deildinni og vann sannfærandi sigur á neðrideildarliði KÁ í 32 liða úrslitum bikarsins.
Síðan þá hefur hallað hratt undan fæti, liðið hefur náð í eitt stig í fjórum deildarleikjum í röð. Liðið hefur tapað þremur af þeim og öll töpin hafa komið á heimavelli gegn Fram, Breiðablik og HK.
Rauði þráðurinn í vandamáli KR virðist vera varnarleikurinn en liðið hefur fengið á sig 18 mörk í átta keppnisleikjum í sumar. KÁ sem leikur í fimmtu neðstu deild skoraði tvö á KR liðið.
KR hefur fengið á sig ellefu mörk í sex deildarleikjum og sjö mörk á sig í tveimur bikarleikjum. Liðið tapaði gegn Stjörnunni í bikarnum í gær þar sem liðið fékk á sig fimm mörk.
KR hefur í sumar fengið á sig 2,37 mörk að meðaltali í leik.
Guy Smit hefur átt í vandræðum í marki liðsins og þá hafa varnarmenn liðsins setið undir gagnrýni. Ljóst er að Ryder þarf að leysa þessi vandamál sem fyrst fyrir KR-inga en eftir jákvæða umræða í kringum hann og liðið í upphafi móts er farið að bera á neikvæðni úr hópi KR-inga.
Mörk á sig:
Í deild – 11
Í bikar – 7