Síðustu áratugi hefur stöðug fólksfækkun verið í Detroit, sem var miðstöð bílaframleiðenda í Bandaríkjunum á árum áður, og raunar þarf að leita aftur til ársins 1957 til að finna fólksfjölgun á milli ára.
New York Times bendir á það að á sjötta áratug síðustu aldar hafi íbúar verið tæplega tvær milljónir talsins og var borgin sú fjórða fjölmennasta í Bandaríkjunum þegar best lét. Í dag telst borgin sú 26. fjölmennasta í landinu.
„Þetta er frábær dagur,“ sagði Mike Duggan, borgarstjóri Detroit, þegar nýju tölurnar voru gefnar út í gær. „Fólksfækkun hefur orðið í mörgum stórum borgum Bandaríkjanna ár eftir ár. Að sjá fólksfjölgun í Detroit er mikil breyting,“ bætti hann við.