Stjarnan sló KR út í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld í markaleik. Eitt mark stóð upp úr.
Það var Örvar Eggertsson sem kom Stjörnunni yfir á 20. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Axel Óskar Andrésson fyrir KR. Var þetta annað mark hans í Garðabænum á leiktíðinni en hann skoraði gegn Stjörnunni í deildinni á dögunum.
Örvar var aftur á ferðinni með mark snemma í seinni hálfleik og skömmu síðar kom Guðmundur Baldvin Nökkvason Stjörnunni í 3-1. Óli Valur Ómarsson skoraði svo fjórða mark Stjörnunnar á 78. mínútu og útlitið ansi gott.
KR beit þó heldur betur frá sér í restina með mörkum frá Benoný Breka Andréssyni. Adolf Daði Birgisson innsiglaði hins vegar 5-3 sigur Stjörnunnar í restina.
Mark Adolfs var hreint magnað. Sjón er sögu ríkari. Myndband er hér að neðan.
Vá! Adolf Daði með alvöru mark. Flikkflakk og vippa. Hágæði, lífshætta. Hann kláraði leikinn endanlega fyrir Stjörnumenn sem fóru áfram í átta liða úrslit🪄 pic.twitter.com/xLpF6ROVRz
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 16, 2024