fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum

Svarthöfði
Fimmtudaginn 16. maí 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom Svarthöfða á óvart í vikunni að svo virðist sem Morgunblaðið og Ríkisútvarpið hafi snúið bökum saman í umfjöllun sinni um komandi forsetakosningar, en ekki er betur vitað en að ritstjórnir ríkismiðlanna tveggja séu aðskildar, enn sem komið er hið minnsta.

Mörgum þótti Stefán Einar Stefánsson, sem ku kalla sig siðfræðing, fara offari gegn frambjóðendum sem hann fékk til sín í viðtal í streymisveitu Morgunblaðsins og voru þar sérstaklega tínd til viðtöl við Baldur Þórhallsson og Höllu Hrund Logadóttur, en ýmsir sem Svarthöfði hefur tekið tali á förnum vegi telja að með spurningum sínum, framkomu og úrvinnslu frétta upp úr viðtölunum hafi Stefán Einar stigið langt út fyrir mörk hins siðferðilega.

Það kom svo nokkuð flatt upp á Svarthöfða er sú dagfarsprúða og almennt kurteisa sjónvarpskona Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók að því er virðist við keflinu af Stefáni Einari og tók Höllu Hrund til þriðju gráðu yfirheyrslu í Forystusætinu, ströng á svip og óþolinmóð.

Svarthöfði gat ekki betur heyrt en að spurningar Jóhönnu væru beint úr bók siðfræðingsins á Morgunblaðinu. Ákafi spyrjandans var svo mikill að Halla Hrund mátti hafa sig alla við að koma svörum sínum að. Þegar upp var staðið hafði frambjóðandanum þó tekist bærilega að koma sínum skilaboðum frá sér, þrátt fyrir orrahríðina frá spyrjandanum.

Þrátt fyrir að Morgunblaðið og Ríkisútvarpið séu bæði á framfæri skattgreiðenda, hið fyrrnefnda fékk 10 milljarða afskrifaða hjá ríkisbanka á meðan hið síðarnefnda þiggur einhverja sex milljarða á ári frá skattgreiðendum, er það þó einungis Ríkisútvarpið sem hefur hlutleysisskyldu að gegna.

Þó að bersýnilegt sé að báðir ríkismiðlarnir styðja fyrrverandi forsætisráðherra til embættis forseta er einsýnt að Ríkisútvarpið verður að þjarma að henni á sama hátt og reynt var að þjarma að Höllu Hrund í vikunni.

Svarthöfði býst fastlega við því að hart verði gengið á Katrínu um það hvernig það samræmist hennar lífshugsjónum og pólitísku skoðunum að ríkisstjórn hennar varð sú fyrsta í Íslandssögunni til að kaupa beinlínis vopn handa stríðandi þjóð, þegar hefðin er sú að Ísland tekur ekki þátt í slíku heldur einbeitir sér að hjálparstarfi.

Svarthöfði hlakkar til að heyra svör Katrínar við spurningunni hvernig hún útskýri það að hennar ríkisstjórn frysti greiðslur til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Gaza á grunni staðlauss orðróms þegar neyðin þar var skelfilegri en orð geta lýst. Já, hvernig útskýrir fyrrverandi forsætisráðherra stuðning ríkisstjórnar hennar við tilraun til þjóðarmorðs?

Þá bíður Svarthöfði spenntur eftir því að öðlast skilning á því hvernig herstöðvaandstæðingurinn Katrín breyttist í móttökustjóra fyrir ný aðildarríki Nató. Hvernig samrýmist það að tala gegn veru Íslands í Nató hér heima en mæta þess á milli á leiðtogafundi Nató ásamt Trump og Biden og brosa út að eyrum á myndum.

Ekki er Svarthöfði síður spenntur að heyra svör Katrínar við spurningum um það hvernig á því stendur að eftir sjö ára setu hennar í stóli forsætisráðherra skuli vera neyðarástand í skólamálum, fangelsismálum, geðheilbrigðismálum, málum aldraðra og öryrkja, nú heilbrigðismálum yfirleitt.

Hvernig útskýrir Katrín Jakobsdóttir svik ríkisstjórnarinnar við þjóðina í öllum þessum stóru málaflokkum, að ekki sé minnst á að neyðarástand ríkir í samgöngumálum hér á landi? Hvernig útskýrir hún það að ríkisstjórn hennar, og þá fyrst og fremst hennar eigin flokkur, hefur dregið lappirnar og staðið í vegi fyrir sjálfbærri orkunýtingu og búið svo um hnútanna að orkuskortur er staðreynd á Íslandi.

Er þá ónefnd frammistaða ríkisstjórnar Katrínar í efnahagsmálum. Ríkisstjórn Katrínar nýtur þess vafasama heiðurs hafa knúið Seðlabankann til óheyrilegra stýrivaxtahækkana með óráðsíðu í ríkisrekstrinum og afleiðingin er sú að verðbólga er hér hærri en í nágrannalöndunum, stýrivextir tvöfaldir, almenningur og fyrirtæki flýja nú í verðtryggð lán vegna drápsgreiðslubyrði óverðtryggðra lána á meðan stærstu fyrirtækin eru öll búin að segja sig úr hinu íslenska krónuhagkerfi og komin í erlenda mynt með sína fjármögnun og uppgjör. Svarthöfði sér ekki betur en að þarna sé sviðin jörð eftir sjö ára stjórnarforystu Katrínar.

Fleiri spurningar mætti telja upp og Svarthöfði er þess fullviss að spyrjandi Ríkisútvarpsins mun ekki draga af sér og halda í heiðri hlutleysisskyldu stofnunarinnar. Spurning kannski með að láta þau Jóhönnu Vigdísi og Stefán Einar sjá saman um að grilla Katrínu úr því að svona góð samvinna virðist hafa tekist með þessum tveimur ríkismiðlum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar