Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og forsetaframbjóðandi, hefur lýst yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Stöðvar 2 að bjóða aðeins efstu frambjóðendum í skoðanakönnunum að kappræðuborði sínu í kvöld.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Helgu, þar sem segir:
„Framundan eru síðustu vikur framboðsins.
Okkur hefur verið tjáð að eingöngu frambjóðendur, sem eru efstir í skoðakönnunum þessa viku, komist að í kappræðum á Stöð2 í kvöld.
Sú tilhögun er tæpast lýðræðisleg.
Hún veldur mér vonbrigðum enda er okkur, sem komum minna kynnt til leiks, gert erfitt fyrir.
Ég held þó ótrauð áfram með Ísland í hjarta.“
Forsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon hefur einnig lýst yfir megnri óánægju með þessa ákvörðun. Hann sagði í yfirlýsingu í gærkvöld:
„Það er verið að brjóta þessar reglur þegar haldnar eru kappræður fyrir útvalda frambjóðendur á meðan öðrum er úthýst. Þannig er dagskráin á Stöð2 á morgun sem skrumskælir lýðræðið með falskönnun sem þeir vissu úrslitin úr fyrirfram. Enn eitt dæmið um spunan með falsaðar og skoðanamyndandi kannanir.“