Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag og þar segir Marco að honum finnist áríðandi að fræða börn um þá staðreynd að maurar eru til á Íslandi.
Marco segir í viðtalinu að áður en hann flutti til Íslands hafi hann lesið vísindagrein þar sem fram kom að maurar væru úti um allan heim, nema á Suðurskautslandinu og Íslandi. En þetta er ekki rétt og eru fjórar maurategundir viðvarandi hér á landi; húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur.
Marco segir að ef maurar berast til landsins með frjósamri drottningu þá setjast þeir hér að og fjölga sér.
„Ef þeir hafa hita og mat, þá fjölgar þeim hratt, á einum mánuði frá tuttugu maurum yfir í þúsund,“ segir hann við Morgunblaðið og segir að maurar haldi til dæmis til í kringum hitaveitulagnir þar sem er rakt og heitt.
Hann bendir svo á að fólk kaupir lifandi blóm, til dæmis í Costco eða Ikea, en sjái ekki maura sem eru mögulega í moldinni. „Um nætur fara nokkrir vinnumaurar á stjá og finna smugu til dæmis í parketinu. Þeir sækja fleiri maura í pottinn og flytja á endanum allir undir parketið,“ segir hann í viðtalinu og bætir við að smám saman stækki veldi maurana.
Marco vill gjarnan fá að vita af því ef fólk finnur maura heima hjá sér og vill vera meindýraeyðum innan handar við að losna við þá.
„Stundum þegar ég hef komið heim til fólks vegna maura sem þar finnast, þá fyllist fólk ótta og vill jafnvel selja húsið sitt, en það er algjör óþarfi,“ segir hann og nefnir að það sé engin skömm að lenda í því að fá maura í heimsókn. Tilvist þeirra hafi þó ekkert með hegðun fólks að gera.
Nánar er rætt við Marco í Morgunblaðinu í dag en einnig má nálgast upplýsingar um maura á Íslandi á þessum vef hér.