fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þeir slá úr og í

Eyjan
Fimmtudaginn 16. maí 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vald Seðlabankans er ekki náttúrulögmál og kemur heldur ekki frá Guði. Sjálfstæði bankans er ákveðið í lögum frá Alþingi. Verðbólgumarkmiðið er svo ákveðið af forsætisráðherra.

Með öðrum orðum: Svo lengi sem ákvarðanir seðlabankastjóra og peningastefnunefndar eru í samræmi við valdheimildir er bankinn ekki að gera neitt annað en það sem ríkisstjórn og Alþingi hafa falið honum.

Samt er sú sérkennilega staða uppi að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra slá úr og í þegar kemur að stuðningi við seðlabankastjóra og peningastefnunefnd.

Traust og ábyrgð

Skortur á stuðningi forsætisráðherra og fjármálaráðherra við rökstuðning seðlabankastjóra og ákvarðanir peningastefnunefndar grefur undan trausti á mikilvægu hlutverki Seðlabankans.

Þeir sem veita Seðlabankanum vald til vaxtaákvarðana bera eðli máls samkvæmt pólitíska ábyrgð á vaxtastiginu gagnvart fólkinu í landinu. Ef þeir treysta sér ekki til að axla þá byrði eiga þeir að taka valdið aftur til sín og sýna þjóðinni hvernig þeir vilja hafa hlutina.

Seðlabankastjóri getur ekki og á ekki að bera pólitíska ábyrgð gagnvart kjósendum. Það er hlutverk lýðræðislega kjörinna stjórnvalda.

Í ruglinu

Séu kjósendur óánægðir með vaxtaákvarðanir eiga ráðherrarnir að taka þá málefnalegu umræðu. Þeir hafa tvo kosti: Að styðja röksemdir bankans fölskvalaust eða taka valdið til sín.

Á meðan þeir gera hvorugt eru þeir í ruglinu. Og á endanum bera þeir líka ábyrgð á því.

Fjármálaráðherra sagði eftir síðustu ákvörðun peningastefnunefndar að þjóðin ætti betra skilið.

Forsætisráðherra sagðist í viðtali við RÚV liðinn laugardag vera svekktur yfir háum vöxtum. Og bætti við að þeir séu óviðunandi áhyggjuefni.

Ráðherrarnir hafa meirihluta á Alþingi. Þeir geta tekið vaxtaákvörðunarvaldið til sín og létt þessum áhyggjum af sér og þjóðinni. Hún er ekki síður svekkt. Þeir geta einfaldlega ákveðið þá vexti sem þjóðin á skilið að þeirra mati. Af hverju gerir þeir það ekki?

„Heimilin segja sig úr lögum við Seðlabankann“

Í RÚV-viðtalinu gagnrýndi forsætisráðherra heimilin harðlega fyrir „að segja sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans.“ Þar vísaði hann til þess að heimilin hafa í stórum stíl horfið frá óverðtryggðum lánum í verðtryggð.

En hvers vegna ætli þessi óskapnaður verðtryggð og ógengisfellanleg króna sé yfir höfuð til. Heimilin vita það af biturri reynslu.

Hefðbundna gengisfellanlega krónan uppfyllir ekki það almenna skilyrði gjaldmiðils að geyma verðmæti og að hann megi nota til að gera samninga til lengri tíma. Heimilin geta ekki einu sinni keypt sér bíl nema í erlendum gjaldmiðli.

Lokar augunum

Athyglisvert er að forsætisráðherra skuli ráðast á heimilin fyrir það „að segja sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans“ eins og hann kýs að kalla þá lögmætu sjálfsbjargarviðleitni húsnæðiskaupenda að létta greiðslubyrðina í byrjun lánstímans.

Þessi lögmæta sjálfsvörn heimilanna veikir að sjálfsögðu áhrif vaxtaákvarðana peningastefnunefndar.

En forsætisráðherra landsins horfir fram hjá því að það eru ekki bara heimilin sem hafa með lögmætum hætti „sagt sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans.“

Útflutningsfyrirtæki með yfir 40% af þjóðarframleiðslunni hafa gert það sama og taka lán í erlendum gjaldmiðlum þar sem vaxtastigið er þrefalt lægra. Ísland væri ekki samkeppnishæft ef þau gerðu þetta ekki.

Þessi sjálfsbjargarviðleitni deyfir áhrifin af vaxtaákvörðunum Seðlabankans í miklu ríkari mæli en sjálfsvörn heimilanna.

Týnd hugmyndafræði

Mismununin, sem forsætisráðherra lokar augunum fyrir, er undirrót óánægju og kergju almennings.

Forystufólk í launþegahreyfingunni hefur ítrekað bent á þá staðreynd. Ríkisstjórnin hefur hafnað óskum þess um að fá erlenda sérfræðinga til að greina vandann.

Þeir sem loka augunum fyrir þessari djúpu og alvarlegu mismunun í samfélaginu hafa týnt hugmyndafræðinni um jöfn tækifæri fyrir alla.

Vel nýtt rök

Þegar forsætisráðherra svarar gagnrýni á margfalt hærri og þrálátari verðbólgu en í grannlöndunum bendir hann bara á eitt: Að launafólk hafi knúið fram allt of miklar launahækkanir.

Þegar forsætisráðherra lýsir því hversu góð staða þjóðarbúsins sé bendir hann bara á eitt: Að launafólk hafi miklu hærri laun en í grannlöndunum.

Rökin eru vel nýtt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin