fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

„Maður getur ekki látið óttann stýra lífi sínu“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 15. maí 2024 11:00

Arnar Þór og Hrafnhildur Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Arnar Þór Jónsson og Hrafnhildur Sigurðardóttir hafa þekkst í meira en 30 ár og segjast standa þétt saman í flestu sem þau gera. Arnar og Hrafnhildur eru nýjustu gestir í podcasti Sölva Tryggvasonar, þar sem Hrafnhildur segist bera mikla ábyrgð á þeirri vegferð sem maðurinn hennar hefur farið í:

,,Við erum búin að þekkjast síðan 1990, þannig að við kunnum að dansa saman tangó. Stundum þarf að gefa í og stundum draga úr og finna jafnvægi, en við vegum hvort annað mjög vel upp. Ég ber ábyrgð á því að hluta til að hann hafi farið í stjórnmál og svo forsetaframboð. Ég var orðin þreytt á því að hann væri að æsa sig heima yfir þjóðmálunum og hvatti hann til að láta í sér heyra opinberlega. Ég skoraði á hann að finna sér hljóðnema og ræðupúlt og hef staðið á bak við hann og hvatt hann í þessari vegferð,” segir Hrafnhildur, sem segist finna mikinn stuðning fólks, en margir virðist enn hræddir við að segja skoðanir sínar upphátt:

,,Nú erum við búin að fara hringinn í kringum landið og maður heyrir mikið að fólk hvíslar að okkur að það sé sammála en þori oft ekki að setja ,,like” á færslur eða viðurkenna að það styðji Arnar. Við finnum mikinn stuðning í samtölum við fólk og almennt er þetta mjög jákvætt. Það venst að mæta mótlætinu. Það var erfitt fyrst að sjá jafnvel vini vera að styðja aðra frambjóðendur á samfélagsmiðlum, en við buðum upp á þennan leik og verðum þá að taka þátt í honum með öllu sem fylgir. Við erum í lýðræðisþjóðfélagi og vonandi kjósa bara allir út frá eigin innsæi og hjarta.“

Segja særandi að skoðanir fólks séu mótaðar 

Talið berst að skoðanakönnunum og hvað þeim finnst um að það sé í raun verið að segja fólki að það séu bara 3-4 sem koma til greina og það séu þeir sem rétt sé að kjósa:

,,Þetta særir mig nánast. Að sjá þessa uppsetningu og það hvernig í raun er verið að reyna að móta skoðanir fólks með skoðanakönnunum. Við viljum að fólk kjósi þann sem það vill kjósa, en ekki bara þann sem þeim líst skást á af þeim efstu í skoðanakönnunum, segir Hrafnhildur og Arnar bætir við:

,,Ég upplifi að það sé að verða mikil umpólun í samfélagsumræðunni og að fólk sé meira að þora að segja það sem það er að hugsa. En það er ennþá mikill samfélagsþrýstingur um að fylgja ríkjandi valdi hverju sinni og þeirri skoðun sem þykir réttust. En ég trúi því að fólk sé að vakna til vitundar um mikilvægi þess að standa með eigin sannleika og láta hann ekki drukkna í hávaðanum frá skoðunum annarra. Hrafnhildur hefur verið mitt helsta akkeri í nákvæmlega þessu. Að týna ekki minni eigin rödd og innsæinu. Það ger­ast ein­hverj­ir töfr­ar þegar maður fer í þá veg­ferð að feta sína eig­in braut og þora að vera trúr sjálf­um sér. Þegar maður slepp­ir ör­ygg­inu og elt­ir hlut­verk sitt ger­ast fal­leg­ir hlut­ir. Maður getur ekki látið óttann stjórna lífi sínu,” segir Arnar og heldur áfram:

,,Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort öll þessi kulnun og kvíði og það sem er að ásækja fólk eigi að hluta til rætur í því að fólk fær ekki að vera það sem því er ætlað að vera. Í stað þess að tala stöðugt um hópa og pína fólk inn í hópa og samfélagsnorm ættum við að komast í að vera við sjálf og þannig náum við að slaka inn í okkar innsta kjarna.“

Segja nauðsynlegt að slökkva á áreitinu

Hrafnhildur hefur kennt hugleiðslu í áraraðir og aðstoðað fólk við að komast nær innsæinu og þar með sínum eigin sannleika:

,,Ég hef starfað við það í meira en tíu ár að hjálpa fólki að tengjast innsæi sínu og læra að hlusta á eigin sannfæringu. Það dynur á okkur gífurlegt áreiti alla daga og kúnstin er að ná að stíga reglulega frá huganum til þess að finna fyrir eigin kjarna. Það er misjafnt hvernig fólk skynjar innsæi sitt, en kúnstin er að þjálfa þetta upp á hverjum einasta degi, meðal annars með hugleiðslu og djúpri öndun. Innra með okkur öllum býr kjarni eða sannleikur sem við náum í ef við köfum nógu djúpt,” segir Hrafnhildur og Arnar bætir við:

,,Við verðum reglulega að slökkva á öllum þessum ytri áreitum til þess að heyra í okkar eigin rödd. Ég næ því meðal annars með því að vera úti í náttúru og fara í göngutúra. Hugurinn verður að losna við alla mengun til þess að ná að kyrrast og tengjast fyrir alvöru. Rödd guðs og einhvers æðra er innra með okkur öllum, en við kunnum ekki lengur að heyra í henni í allri þessarri áreitamengun.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Arnar og Hrafnhildi og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar