Allar líkur eru á því að KA muni áfrýja dómi Héraðsdóms Norðurlands frá því í gær, þar var félaginu gert að greiða fyrrum þjálfara sínum, Arnari Grétarssyni væna summu.
433.is hefur fengið þetta staðfest úr herbúðum KA en félagið hefur fjórar vikur til að taka endanlega ákvörðun. Áfrýji KA dómnum fer málið til Landsréttar.
KA var dæmt til að greiða Arnari fyrrum þjálfara liðsins tæpar 11 milljónir auk dráttarvaxta
Arnar stefndi KA á síðasta ári vegna þess að hann taldi sig eiga inni fjármuni hjá félaginu, tengdist það því að Arnar kom liðinu í Evrópu.
KA var ekki sammála mati Arnars og hans lögfræðings og vildi ekki ganga frá greiðslum, ákvað Arnar því að höfða mál gegn félaginu.
Fyrir dómi í gær var KA dæmt til að greiða Arnari um 8,8 milljón auk dráttarvaxta frá 5 nóvember á síðasta ári.
Þá þarf KA að greiða Arnari 2 milljónir króna í málskostnað en félagið getur áfrýjað þessum dómi til Landsréttar.
Arnar þjálfaði KA í tvö og hálft ár með góðum árangri og kom liðinu inn í Evrópukeppni en Hallgrímur Jónasson stýrði liðinu áfram í þriðju umferð en Arnar fær nú sinn bónus fyrir þátt sinn í þeirri vegferð.
Arnar hætti með KA fyrir um 18 mánuðum og tók við þjálfun Vals þar sem hann starfar enn í dag.