Þorvaldi Gylfasyni hagfræðingi, nýjasta viðmælanda Mumma í Kalda pottinum finnst framboð fyrrum forsætisráðherra til forseta vera myndbirting mjög alvarlegs hagsmunaárekstrar sem jaðri við siðvillu af vondri tegund. Sem forsætisráðherra hafi hún farið fyrir þeim sem hafa staðið í vegi fyrir staðfestingu á nýrri stjórnarskrá og þar með staðið í vegi fyrir breytingu á ákvæði um forsetakjör sem felur í sér að enginn verði forseti nema hann hafi meirihluta atkvæða að baki sér. Þess í stað hafi hún, með framboði sínu til forseta, nýtt sér þennan galla í gömlu stjórnarskránni þótt hún megi vita að hún fær að hámarki 30% atkvæða – sem gæti engu að síður dugað til sigurs. Þorvaldur og Mummi ræða líka eftirmála hrunsins, stjórnlagaráðið, spillingu í dómskerfinu og ýmislegt fleira hressandi.
Þorvaldur tekur fram að sem forsætisráðherra hafi Katrín Jakobsdóttir staðið í vegi fyrir nýju stjórnarskránni og jafnvel fengið sérfræðinga til að útbúa nýtt auðlindaákvæði sem sé „tann- og bitlaust“ samanborið við það auðlindaákvæði sem yfir 80 prósent landsmanna samþykktu í þjóðaratkvæðisgreiðslu. Þorvaldur segir fá dæmi þess að stjórnarskrá hljóti jafn breiðan og mikinn stuðning og nýja stjórnarskráin sem hafi hlotið náð í augum landsmanna þvert á aldur, þjóðfélagsstöðu og stjórnmálaskoðanir. Það sé því ákveðin árás gegn þjóðinni hjá Katrínu að fara gegn skýrum vilja þjóðarinnar.
Nýja stjórnarskráin hefur að geyma nýtt ákvæði um forsetakjör. Þar segir að kjósendur skuli raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá sem best uppfyllir forgangsröðum kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, sé rétt kjörinn forseti. Væri þetta ákvæði í gildi í dag hefði kjörinn forseti haft meira fylgi á bak við sig heldur en frambjóðendur þurfa í dag. Þorvaldur segir að þar sem Katrín hafi staðið í vegi fyrir þessu ákvæði með því að beita sér ekki fyrir nýju stjórnarskránni sé hún í raun sjálf að njóta góðs að því að kröfur til framboðs hennar séu minni en ella.
„Að standa gegn þessari réttarbót sem forsætisráðherra og ætlar svo að nýta sér gallann í gömlu stjórnarskránni með því að fara fram þótt hún megi vita það að hún fái í mesta lagi 30 prósent atkvæða, sennilega ekki nema 25 sem mun duga henni til sigurs. Það er bara myndbirting mjög alvarlegs hagsmunaáreksturs sem mér finnst bara vitna um siðvillu af vondri tegund.“
Viðtalið við Þorvald var tekið upp 26. apríl þegar framboðsfrestur var að renna út. Þá mældist Katrín efst í skoðanakönnunum sem Þorvaldi leyst ekkert á. Hann leggur þó til lausn til að koma í veg fyrir kjör Katrínar.
„Það er til lausn á þessu. Hún er svolítið kröfuhörð. Hún er sú að þeir 3-4 frambjóðendur sem næstir henni komast í skoðanakönnunum, ef hún verður áfram efst þegar líður á maí, þeir komi sér saman um að bara eitt þeirra verði í framboði. Því þá sigrar sá frambjóðandi með 60-70 prósent atkvæða gegn 20-30 prósent hjá forsætisráðherranum sem braut af sér með því að bjóða sig fram.“
Þorvaldur segir dæmi þess að frambjóðandi dragi framboð sitt til baka skömmu fyrir kjördag. Efstu frambjóðendur geti þar með komið í veg fyrir að fráfarandi forsætisráðherra gerist forseti.
„Sá vægir sem vitið hefur meira. Þess vegna hvet ég þau, þetta skínandi fólk sem býður sig fram í góðri trú, til að láta eigin von um að ná kjöri víkja fyrir þeirri þjóðarnauðsyn að fulltrúi stjórnmálastéttarinnar geti ekki náð kjöri sem forseti og þar með taki á málskotsréttinum, með svona sáralítið fylgi að baki sér. Ég hef ekki mikla trú að þessi tillaga mín nái fram að ganga, en ég vona að þau heyri þetta spjall okkar, heyri hvað ég er að hugsa um þetta, og svo skulum við sjá.“
Þorvaldur deilir svo nokkru sem hann hefur aldrei áður gert. Árið 2007 hafi hann séð í hvað stefndi – hrunið. Á sama tíma var komið að því að kjósa til Alþingis.
„Þá þóttist ég sjá að það væri stórhætta á því að hrunvaldarnir héldu völdum sínum. Þess vegna gerði ég það sem ég hef bara gert í þetta eina skipti á ævinni. Ég fékk til fundar við mig hæstu forystumenn tveggja flokka, annars vegar Samfylkingarinnar og hins vegar Vinstri hreyfingarinnar, til að hvetja þau til að gera kosningabandalag. Þetta hafði aldrei verið gert áður, en ég hvatti þau til að leggja fram einfalda áætlun og segja: Ef við fáum meirihluta þá skuldbindum við okkur til þess, við lofum því, að mynda saman meirihlutastjórn á þingi. Fulltrúa hvorugs flokkanna leist á þetta og ég sá strax að þau skutu upp kryppu. Því þau voru með annað augað á Sjálfstæðisflokknum. Það sem gerðist svo var að Samfylkingin myndaði þennan katastrófu meirihluta með Sjálfstæðisflokknum 2007. Svo hrunið sprakk ekki bara framan í Sjálfstæðisflokkinn heldur líka Samfylkinguna. Og draumur Vinstri grænna um samstarf við Sjálfstæðisflokks þurfti að bíða til 2017, en þá létu þau hann rætast.“
Þorvaldur segir að þetta hafi verið hans fyrsta og eina tilraun til að hafa afskipti á stjórnarmyndun.
Hlusta má á viðtalið við Þorvald og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.