Það var fyrir tæpum tveimur árum sem Scolyear greindist með fjórða stigs illkynja meinvarp í heila, Glioblastoma, sem er með þeim illvígustu sem þekkjast. Lífslíkur þeirra sjúklinga sem greinast með þessa tegund krabbameins eru yfirleitt ekki meiri en ár eftir greiningu.
Meðferðin sem Scolyear notaðist við byggist á rannsóknum hans á sortuæxlum en hann rekur ásamt öðrum vísindamanni, Georgina Long, stofnun í Ástralíu sem heitir Melanoma Institute Australia.
Til að gera langa sögu stutta notaði Scolyear meðferð sem byggist á ónæmismeðferð sem má segja að „kenni“ líkamanum að ráðast á krabbameinsfrumur.
Komust Scolyear og aðrir vísindamenn sem komu að verkefninu að því að ónæmismeðferð virkar betur þegar ákveðin samsetning krabbameinslyfja er gefin áður en skurðaðgerð er framkvæmd. Var lyfjablandan, sem líkja mætti við bóluefni, sérsniðin að æxlinu sem hann var með og árangurinn virðist ekki hafa látið á sér standa.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið segir Scolyear að hann hafi verið mjög stressaður þegar hann fór í myndatöku á höfði í síðustu viku. Á myndinni sáust engin merki um æxli og segir Scolyear að honum líði vel þó fyrstu mánuðirnir eftir að æxlið greindist hafi verið erfiðir.
„Þetta þýðir alls ekki að ég sé læknaður af krabbameininu en það er gott að vita að það hefur ekki komið aftur. Þannig fæ ég meiri tíma til að njóta lífsins með eiginkonu minni og þremur börnum,“ segir hann við BBC en Scolyear er 57 ára.
Eins og eðlilegt er hafa tíðindin af Scolyear vakið vonir í brjóstum vísindamanna um að hægt verði að ná betri tökum á sjúkdómnum, en talið er að minnst 300 þúsund manns greinist með heilaæxli á ári hverju í heiminum.
Scholyear og Long segja að næst á dagskrá sé að gera klínískar rannsóknir á þeirri aðferð sem notuð var og bjóða sjúklingum sem greinst hafa með þessa tegund af æxli til þátttöku. Bæði eru þó meðvituð að mikið vatn geti runnið til sjávar áður en eitthvað gerist.
„Við höfum safnað miklum gögnum og lagt grunninn að næstu skrefum sem er að hjálpa fleira fólki. Við erum ekki komin þangað ennþá. Það sem við þurfum að fókusera á er að sýna fram á að þessi ónæmismeðferð fyrir skurðaðgerð virki fyrir sjúklinga.“