Svanberg, sem sjálfur er öryrki, segir að fólk í hans stöðu hafi lengi óttast það að sitjandi ríkisstjórn framkvæmi hótanir sínar um að innleiða starfsgetumat.
„Nú liggur fyrir að félags- og vinnumarkaðsráðherra, formaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ætlar að þvinga í gegnum þingið frumvarpi um endurskoðun örorku almannatrygginga sem inniheldur starfsgetumat.“
Svanberg vísar svo í ræðu sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, flutti á Alþingi þann 10. apríl síðastliðinn þar sem hún skoraði á þingmenn að sjá myndina I, Daniel Blake sem fjallar um afleiðingar þess að innleiða starfsgetumat í Bretlandi. Um er að ræða mynd frá 2016 sem hlaut meðal annars BAFTA-verðlaunin árið 2017 sem mynd ársins.
„Í kjölfar innleiðingar starfsgetumats í Bretlandi sviptu um 4.000 einstaklingar sig lífi. Þessi mynd, segir í raun og veru allt sem segja þarf um þær embættisfærslur sem eru fyrirhugaðar frá hæstvirtum félagsmálaráðherra, um þá aðför sem hann hefur í huga gagnvart fötluðu fólki á Íslandi í dag,“ sagði Inga meðal annars í ræðu sinni.
Svanberg gagnrýnir viðbrögð Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra undir ræðu Ingu.
„Á meðan Inga ræddi um stóraukinn fjölda sjálfsvíga meðal öryrkja og fatlaðra í Bretlandi eftir að þeir voru dæmdir vinnufærir í nýju starfsgetumati sem innleitt var þar í landi, sátu nývígður forsætisráðherra Bjarni Benediktsson og félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson fyrir aftan hana á ráðherrabekknum. Ekki virtust þeir taka áhyggjur Ingu Sæland alvarlega, þar sem þeir voru bókstaflega hlæjandi á meðan hún talaði. Vanvirðingin sem þessi ríkisstjórn sýnir öryrkjum er hömlulaus.“
Svanberg segir að þrátt fyrir viðbrögð ráðherranna sé umræðan mjög brýn. Nú liggi fyrir frumvarp á Alþingi um umfangsmiklar breytingar á almannatryggingakerfinu á Íslandi. Segir Svanberg að þar verði rík áhersla lögð á starfsgetumat, svipuðu því sem innleitt var í Bretlandi.
„Ef við öryrkjar viljum komast hjá því að upplifa það sama óréttlæti og við höfum séð í Bretlandi þurfum við að láta heyra í okkur,“ segir hann meðal annars.