Glúmur var á suðurströndinni við veitingastaðinn Gamla fjósið undir Eyjafjallajökli í gær og hugðist hann aka af planinu inn á þjóðveginn. Hann segist hafa litið til beggja átta og séð bíl koma úr vestri sem gaf stefnuljós inn á planið. Glúmur taldi því að honum væri óhætt að aka inn á þjóðveginn og steig hann á bensíngjöfina.
„Og í þann mund heyrði ég órætt óp og ég snarhemlaði og kom í veg fyrir að vera vera dúndraður niður af bíl sem kom úr austri á ógnarhraða. Hann var mér ósýnilegur sekúndubroti áður. Ég skil ekki enn hvernig ég nam þetta óræða óp úr fjarskanum og hvaðan það kom,“ segir Glúmur sem var eðlilega brugðið.
„Ég er fyrst núna að átta mig á hversu mjóu munaði á milli lífs og dauða. Hrollurinn læðist enn um mig.“
Margir tjá sig undir færslu Glúms og segjast fegnir að ekki hafi farið illa. Það hafi jafnvel einhver hönd hlíft honum.
Sjálfur slær Glúmur á létta strengi eins og honum einum er lagið og segir að það hefði verið ömurlegt að missa af forsetakosningunum og ekki síður leik Manchester United og Manchester City í úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 25. maí næstkomandi, en Glúmur er einn harðasti stuðningsmaður United hér á landi.