Hjalti segir þar frá strætóferð hans og eiginkonu hans þriðjudaginn 30. apríl síðastliðinn, en þau tóku vagn númer 15 á Laugavegi við Hátún og hugðust fara upp í Ártún. Stigu þau inn í vagninn klukkan 15:30 og voru komin á áfangastað klukkan 16:40.
„Þessi stutti akstur tók 1 klst. og 10 mínútur. Í vagninum voru 40-50 manns, en allt í kring voru einkabílar, flestir aðeins með eina manneskju innanborðs. Ýmsar spurningar vöknuðu við þessa bið í vagninum,“ segir Hjalti í grein sinni.
Hann gagnrýnir fyrirkomulagið í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og segir að ekki virðist hafa skapast þær venjur að veita strætisvögnum forgang. Spyr hann hvort ekki sé hægt að gera ráðstafanir þessar tvær klukkustundir að morgni og tvær klukkustundir seinni part dags þegar umferð er mest til að veita almenningssamgöngum einhvern forgang inn að Elliðaám. „Hvað með sveigjanlegan vinnutíma? Ekki nóg gert þar?“
Í grein sinni bendir Hjalti á að þessi leið, númer 15, sé á þessum tíma með þrjá vagna á klukkustund, á 20 mínútna fresti.
„Þetta leiddi af sér að þrír vagnar á þessari leið voru fastir í umferðarteppunni. Maður gat heyrt fólk tala í síma og afsaka að það kæmi of seint, t.d. til vinnu eða fundar eða að sækja barnið sitt.“
Hjalti segir að sem eldri borgarar noti þau hjónin strætisvagn meira en þau gerðu áður en mikið vanti upp á að gera notkun þeirra aðlaðandi.
„Ísland er nokkuð veðurhart land en mikið vantar á að biðskýli séu skjól. Sum þeirra eru mjög óþrifaleg, rusl og stubbar um allt og upplýsingaskilti um ferðir vagnanna eru bágborin og sum vantar.“
Hann rifjar upp mikinn bíltúr sem þau hjónin fóru í um Evrópu í fyrrahaust.
„Í ferðinni ókum við inn í margar miðborgir. Augljóst var að sporvagnar höfðu forgang og voru oftast á miðju vegar. Farþegar þurfa alltaf að ganga yfir umferðargötu í og úr vögnunum. Sporvagnar eru yfirleitt á miðju vegar innst í miðborgum en svo ganga strætisvagnar í ytri hverfi og þeir eru á hægri akrein, upp við gangstétt, og þar hefur einnig verið veittur réttur fyrir leigubíla og rútur þar sem farþegar fara beint út á gangstétt og þurfa ekki yfir umferðargötu.“
Hjalti segir að þessar hugleiðingar hans hafi orðið til þess að honum varð hugsað til borgarlínunnar.
„Með auknum ferðamannastraumi og þar með mikilli aukningu rútuferða finnst mér undarlegt að ekki hafi verið í umræðunni að hleypa rútum og leigubílum með á borgarlínubrautirnar, sem annars eru auðar og tómar á milli ferða. Mikið hefur verið munnhöggvist um borgarlínuna og stór orð viðhöfð, sem kannski hefur valdið því að ekki hefur heyrst múkk undanfarið varðandi þetta mál, enda stórt og dýrt verkefni. Okkur var aldrei sýndur þessi möguleiki, með brunandi bílaumferð í miðju en borgarlínu og rútur og leigubíla við jaðra,“ segir Hjalti sem spyr hvort þetta sé svo galið.
„Og ekki endilega troða einhverjum gróðri þarna til að auka plássið sem þetta tekur. Nóg er af öðrum svæðum fyrir gróður, og er ég mikill gróðuraðdáandi.“