Valur Gunnarsson sparkspekingur Fótbolta.net var hissa að sjá líkamlegt atgervi Ísaks Þorvaldssonar sóknarmanns Breiðabliks á sunnudag þegar hann fór á völlinn.
Valur fór á sigur Breiðabliks gegn Fylki á sunnudag þar sem Ísak byrjaði sinn fyrsta deildarleik í sumar. Ísak Snær er samningsbundinn Rosenborg en var lánaður til Blika í upphafi móts.
Líkamlegt atgervi Ísaks hefur oft komið til umræðu og undanfarnar vikur hefur það verið til umræðu í hinum ýmsu spjallþáttum.
„Bara ekki sérstaklega vel, hann er ekki í næginlega góðu standi,“ sagði Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net um ástandið á Ísaki í Innkastinu.
Valur sem er fyrrum markvörður Leiknis tók þá til máls. „Hann er í slæmu standi, þéttur á vellinum. Ég var í sjokki að sjá hann, hvíti búningurinn ekki að gera honum neitt þarna. Hann er í verra standi en ég átti von á,“ sagði Valur.
Valur skilur ekki hvernig Ísak bætir svona á sig þegar hann hefur það sem atvinnu að spila fótbolta.
„Ég skil ekki alveg hvernig hann getur dottið í þetta stand sem atvinnumaður, mér fannst hann í slæmu standi og hvíti búningurinn ekki að gera honum greiða.“