„Ég vissi um leið að þetta var tundurskeyti,“ sagði Moulana Cassim Mahomed Sema, einn farþeganna, mörgum árum síðar í samtali við suðurafríska dagblaðið Sunday Times.
Þetta gerðist 1942, þegar síðari heimsstyrjöldin geisaði, þegar SS Tilawa var á leið frá Bombay á Indlandi, sem er nú Mumbai, til austurstrandar Afríku. Japanski kafbáturinn I-29 skaut þá tveimur tundurskeytum að skipinu aðfaranótt 23. nóvember. Skipið var yfirfullt af fólki og sökk. 280 létust og harmleikurinn fékk fljótlega viðurnefnið „Indverska Titanic“.
En ólíkt því sem gerðist í tengslum við Titanic þá gleymdist SS Tilawa fljótt en nú hefur skipið aftur komist í fréttirnar vegna harðra deilna um farm þess, silfur að verðmæti sem svarar til um 6 milljarða íslenskra króna. Það endaði á hafsbotni en um 2.391 eina silfurstöng var að ræða. Verið var að flytja silfrið frá Indlandi til Durban í Suður-Afríku þar sem átti að bræða það og nota það til að slá mynt fyrir Suður-Afríku og Egyptaland.
Ósnert í 75 ár
Skipinu var sökkt í miðju Indlandshafi og þar lá flak þess ósnert á um 2.500 metra dýpi í 75 ár. Silfurfjársjóðurinn gleymdist allt þar til breska fyrirtækið Argentum Exploration fór að sýna því áhuga fyrir um 10 árum.
Fljótlega tókst að staðsetja flakið og eftir tveggja ára undirbúningsvinnu hófst sex mánaða aðgerð þar sem tókst að finna fjársjóðinn og ná 2.364 silfurstöngum upp.
En þá hófust vandræðin fyrir alvöru.
Silfrið var flutt til Bretlands og komið fyrir í öruggri geymslu. Þar átti það að vera þar til búið væri að greiða úr lagalegum ágreiningsmálum.
Argentum Exploration taldi í fyrstu að silfrið hefði verið tryggt af breska ríkinu á sínum tíma og það ætti það því. Af þeim sökum gerði fyrirtækið strax kröfu í silfrið hjá breskum yfirvöldum, meðal annars vegna þess að fyrirtækið hafði að eigin frumkvæði fundið silfrið og náð því af hafsbotni.
En þá komu Suður-Afríkumenn til sögunnar.
Áður en silfrinu var skipað um borð í SS Tilawa höfðu suðurafrísk stjórnvöld greitt það og það voru því þau sem biðu fjárhagslegt tjón þegar skipinu var sökkt því silfrið var ekki tryggt af þeirri einföldu ástæðu að það var ekki hægt að tryggja það.
Á fyrstu tveimur dómstigunum í Bretlandi töpuðu Suður-Afríkumennirnir en þeir áfrýjuðu málinu til hæstaréttar sem kvað nýlega upp þann dóm að silfrið væri þeirra eign.
Í dómsorði kom þó fram að Argentum Exploration og suðurafrísk stjórnvöld hafi nýlega gert samning sín á milli um málið. Innihald hans hefur ekki verið gert opinbert en líklega er um sárabætur að ræða til handa fyrirtækinu sem fór í einu og öllu að lögum og reglum varðandi meðhöndlun silfursins. Óheiðarlegir aðilar hefðu getað komið silfrinu í land annars staðar en í Bretlandi og látið bræða það án þess að yfirvöld hefðu nokkru sinni komist að því.