Ökumaðurinn, sem var 18 ára, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist út úr bifreiðinni í slysinu. Hann lést skömmu eftir komuna á sjúkrahús. Reiknaður ökuhraði bifreiðarinnar, 2004 árgerð af Toyota Yaris, þegar slysið varð var 142 kílómetrar á klukkustund.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur nú birt skýrslu um slysið en þar kemur fram að ökumaður hafi verið að nota farsíma rétt áður en slysið varð.
„Á um 16 mínútna tímabili, fyrir slysið, sendi ökumaður nokkur skilaboð úr símanum, þar af eitt myndskeið sem tekið var upp á farsímann við aksturinn og tvær ljósmyndir. Um 21 sekúndu fyrir sjálfvirkt símtal farsímans í Neyðarlínu (112) kl. 08:38:46 bárust ökumanni margmiðlunarskilaboð í farsímann. Farsímar af þessari gerð hringja sjálfkrafa í Neyðarlínu 20 sekúndum eftir að hann skynjar högg sem kann að gefa til kynna slys. Líklegt er að ökumaðurinn hafi ekki verið með nægjanlega athygli við aksturinn þegar slysið varð,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.
Bent er á það að nýlegt malbik hafi verið á yfirborði vegarins en hvorki hafði verið lokið við að merkja kantlínur á veginn né höfðu verið fræstar rifflur til hliðar. Þannig var ekki búið að afmarka breidd akbrautar eða vegaxlir. Kemur fram í skýrslunni að sennilegt sé að rifflur til hliðar við akreinina hefðu vakið athygli ökumanns áður en bifreiðin fór út fyrir bundna slitlagið.
Meginorsök slyssins, að mati rannsóknarnefndar samgönguslysa, er sú að ökumaðurinn hafði notað farsímann talsvert skömmu fyrir slysið til þess að taka upp myndband, taka ljósmyndir og senda skilaboð á meðan hann ók bifreiðinni. Þá er nefnt að hraðakstur, að rifflur vantaði í vegkant og sú staðreynd að ökumaðurinn var ekki í bílbelti hafi einnig verið orsakaþættir í banaslysinu.