Vilborg gagnrýnir þar þá ákvörðun Morgunblaðsins að efna til opinna umræðufunda á landsbyggðinni með þeim frambjóðendum sem náð hafa yfir tíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum.
Fyrsti fundurinn var haldinn á Ísafirði með Jóni Gnarr í lok apríl, svo var ferðinni heitið til Egilsstaða þar sem Halla Hrund Logadóttir var aðalgesturinn og á morgun verður fundur með Baldri Þórhallssyni á Selfossi. Þann 20. maí verður svo síðasti fundurinn á Akureyri með Katrínu Jakobsdóttur.
Í grein sinni bendir Vilborg á að enn séu nokkrar vikur þar til gengið verður til kosninga og fylgi frambjóðenda langt í frá orðið ljóst.
„Engu að síður hefur hjá Morgunblaðinu verið tekin sú „lýðræðislega“ ákvörðun að veðja aðeins á fjóra frambjóðendur af tólf. Auglýst hefur verið herferð með útvöldum frambjóðendum þar sem Morgunblaðið efnir til funda um landsbyggðina með tilheyrandi umfjöllun og myndbirtingum í kjölfarið,“ segir Vilborg sem segir Morgunblaðið hafa farið áratugi til baka þegar kemur að því að stjórna umræðunni og það fyrir kosningar.
Vilborg virðist hafa nokkuð til síns máls því samkvæmt nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið er fylgi frambjóðenda á fleygiferð. Halla Tómasdóttir hefur sem dæmi tvöfaldað fylgi sitt og er með 12,5% fylgi samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birtist í morgun.