Söngvaranum Joost Klein, fulltrúa Hollands, hefur verið meinuð þátttaka í úrslitakvöldi Eurovision 2024 sem fram fer í Malmö í kvöld. Klein er grunaður um alvarlegar hótanir í garð starfsmanns keppninnar og hefur verið yfirheyrður af lögreglu vegna málsins. Umræddur starfsmaður er kvenkyns og starfar við útsendingu keppninnar.
Rannsókn málsins hefur verið í fullum gangi og er haft eftir fulltrúa sænsku lögreglunnar að það verði sent til ákæruvalds þar í landi.
Klein hefur ekki fengið að taka þátt í æfingum síðustu daga vegna málsins og nú hefur honum verið formlega sparkað úr keppninni.