fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Umdeilt viðtal við hina raunverulegu Mörthu kallað það siðlausasta fyrr og síðar – Meintur eltihrellir fær að segja sína hlið

Pressan
Föstudaginn 10. maí 2024 13:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmargir hafa séð Netflix-seríuna Baby Reindeer en þar gerir uppistandarinn Richard Gadd, sem er höfundur og aðalleikari þáttanna, upp erfiðan tíma úr eigin lífi þar sem hann var blankur, í sárum eftir kynferðisofbeldi og var beittur umsáturseinelti. Eltihrellirinn spilar stórt hlutverk í sögunni. Gadd hefur ítrekað tekið fram að hér hafi verið á ferðinni alvarlega veik kona, en ekki illmenni. Konan fékk hann á heilann og lét hann ekki í friði í um tvö ár. Í þáttunum birtir hann raunverulega töluvpósta sem hann fékk frá eltihrelli sínum, en þeir voru í heildina yfir 40 þúsund talsins.

Gadd neitaði þó að gefa upp nafn eltihrellis síns, sem í þáttunum er kölluð Martha. Hann sagðist deila sögu sinni til að gera upp þetta tímabil lífs síns sem og að varpa ljósi á stöðu þolenda umsáturseineltis, en lögregla telur hendur sínar bundnar varðandi að stöðva stöðugt áreitið, svo lengi sem það er ekki ofbeldisfullt.

Uppistandarinn tók skýrt fram að hann kenni í brjóst um eltihrelli sinn, sem glími við erfið andleg veikindi og sé ekki að fá þá hjálp sem hún þarf. Þó hann hafi aldrei ætlað að afhjúpa hina raunverulegu Mörthu, Fiona Harvey, þá hafði hann lítið um það að segja þegar Fiona ákvað sjálf að vekja athygli á sér. Hún steig í gær fram í viðtali hjá fjölmiðlamanninum Piers Morgan til að segja sína hlið.

Segir uppistandarann hafa fengið sig á heilann

Viðtalið hefur vakið mikla athygli og harða gagnrýni. Þar segist hin 58 ára Fiona höfð fyrir rangri sök. Þættirnir máli hana upp sem skrímsli sem hafi framið eignatjón, kynferðisbrot og hvaðeina. Hún segir ekki standa stein fyrir steini í þeirri mynd sem Gadd málar upp af henni. Hún hafi aldrei sett sig í samband við foreldra hans og ekki áreitt hann með þúsundum skilaboða. Hún sé ekki einmana eða geðveik og hafi síðustu fimm ár verið í sambandi við lögmann.

Fiona segist sjálf ekki hafa horft á þættina en hún hafi heyrt um þá. „Nei ég hugsa að mér yrði bara óglatt að horfa. Þetta er búið að taka yfir nógu stóran hluta af lífi mínu. Mér finnst þetta stórgalið og einkennast af hrottalegri kvenfyrirlitningu. Sumar morðhótanirnar á netinu eru hrottalegar. Fólk er að hringja í mig. Þetta er búið að vera skelfilegt. Ég tek ekki undir neitt sem í þáttunum kemur fram og kæri mig ekki um svona drama.“

Það liggi við að það sé Gadd sjálfur sem sé andlega veikur. Þættir hans séu skáldskapur og það eina rétta sem komi fram sé nafn hans og að hann hafi starfað á bar á meðan hann var á atvinnuleysisbótum. Fiona hafi átti í samskiptum við  hann fyrir um áratug, en aðeins í 2-3 skipti.

Þau hafi kynnst þegar hún kom á barinn þar sem hann vann. Hún hafi verið þar í hrókasamræðum við aðra þegar hann tróð sér inn í samtalið og hreinlega tók það yfir. Það hafi verið Gadd sem fékk hana á heilann. Hún hafi kannski sent honum tvo tölvupósta en ekki 41 þúsund. Hvað þá lesið inn 350 klukkustundir af skilaboðum í talhólf hans og áreitt hann á samfélagsmiðlum.

Siðlausasta viðtal fyrr og síðar

Morgan benti á að ef Gadd ætti 350 klukkustundir af talhófsskilaboðum þá hlyti slíkt að tala sínu máli. Við því sagði Fiona: „Það þýðir samt ekki að þetta drama sé raunverulegt“. Hún sagðist efa að slíkar upptökur væru til, nema þá að Gadd hafi laumulega tekið upp samtöl þeirra á barnum.

Þegar Morgan gekk harðar að henni virtist hún þó óbeint viðurkenna að nokkuð væri hæft í þáttunum, en þó ekki allt. Það sé grundvallaratriði að ekki allt sé rétt og þar með sé ekki hægt að tala um að þættirnir byggi á sannri sögu.

Aðspurð hvort hún vildi segja eitthvað við Gadd sagði hún: „Láttu mig vera, gerðu það. Fáðu þér líf, fáðu þér alvöru vinnu. Mér er misboðið yfir því sem þú hefur gert.“

Morgan spurði hvort hún hafi verið ástfangin af uppistandaranum:

„Piers, er þetta alvöru spurning? Nei… ég hafnaði honum. Hann bað mig að sofa hjá sér. Hann spurði hvort ég vildi láta laga gardínurnar mínar. Og ég hló og hann sagði að þetta væri myndlíking. Hann vildi að ég kæmi heim með sér. Ég sagði honum að ég ætti kærasta. Ég hafnaði honum frekar mikið, en samt svona lúmskt. Grundvallaratriðið er að – nei ég er ekki skotin í litlum atvinnulausum strákum. Það hljómar kannski illa og er mjög mjög illkvittið. En svona er þetta.“

Fiona segist vera að íhuga að greina frá sinni hlið með  því að gefa út bók og sagðist tilbúin að gangast undir lygapróf til að sanna mál sitt.

Piers Morgan hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðtalið. Ljóst sé að þarna sé hann að notfæra sér veika konu í erfiðri stöðu. Mögulega sé þetta siðlausasta viðtal fyrr og síðar. Samtök sem berjast fyrir vitundarvakningu um andlega veikindi hafa kallað viðtalið óábyrga fréttamennsku. Ekki þarf að beita miklum klókindum til að finna samfélagsmiðla Fionu þar sem sést að bæði ritstíll hennar og tíðni færslna renni styrkum stoðum undir frásögn Gadd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 3 dögum

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum