fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Segir að lögreglan hafi ráðlagt henni að kæra ekki líkamsárásina – „Ef ég færi á eftir honum þá ætti ég í hættu að hann kæmi á eftir mér“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 11. maí 2024 10:29

Kiddu var ráðlagt að kæra ekki þar sem lögreglan taldi líklegt að ofbeldismaðurinn myndi koma á eftir henni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlakonan Kristjana Svarfdal, betur þekkt sem Kidda Svarfdal, varð fyrir hrottalegri líkamsárás fyrir rúmlega fjórtán árum. Hún segir að lögreglan hafi ráðlagt henni að kæra ekki málið og hafi sagt að viðkomandi einstaklingur væri mjög hættulegur síbrotamaður sem gæti komið á eftir henni.

Kidda er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hún er eigandi og ritstjóri Hún.is og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Fullorðins.

Brotið hér að neðan er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér.

video
play-sharp-fill

Þú getur einnig hlustað á Spotify, Apple Podcasts og hlaðvarpsþjónustu Google.

Kidda byrjaði að drekka þegar hún var um sextán ára til að passa inn í hópinn en óttinn við að vera vinalaus eða úrhrak var sterkari en loforðið sem hún gaf bróður sínum mörgum árum áður.

„[Ég og bróðir minn] gerðum samning þegar við vorum lítil um að við ætluðum aldrei að drekka. Af því að pabbi okkar er alkóhólisti og hætti að drekka þegar við vorum lítil, en við vorum ákveðin að vera ekki svoleiðis,“ segir Kidda.

„Bróðir minn byrjaði aldrei að drekka en ég var svo áhrifagjörn og hrædd um að vera ekki með í hópnum að ég byrjaði að drekka í tíunda bekk. Það var ekki gæfuspor, getum sagt það. Ég kunni það bara ekkert. Ég var ekki að drekka það oft en þegar ég drakk var ég alveg í ruglinu. Þegar ég hætti að drekka þá var ég bara: „Þetta verður bara leiðinlegt en ég verð allavega á lífi.“ Þetta var bara þannig. Ég þurfti að velja að vera á lífi eða ekki, því ég var að fokka öllu upp, afsakið orðbragðið.“

„Undir lokin var þetta bara óvissuferð“

Kidda hætti að drekka þegar hún var ólétt af dóttur sinni. „Ég var edrú í tvö ár en hluti af því var auðvitað meðganga og brjóstagjöf. Þannig þetta var ekkert afrek. Svo var ég að jafna mig eftir fæðingu og meðgöngu og svo allt í einu langar mann að fara að gera eitthvað. Þá byrjaði ég aftur [að drekka] og ég var ekki lengi að ákvarða það að rótin að óhamingju minni væri að maðurinn sem ég var með nennti aldrei að djamma með mér og við skildum,“ segir hún og bætir við:

„Það var náttúrulega alls ekki þannig. Þetta er yndislegur maður og frábær í alla staði, gæti ekki verið heppnari með barnsföður. En þetta var bara alkóhólisminn. Ég ætlaði að fara að lifa lífinu aðeins.“

Eftir skilnaðinn fór Kidda að djamma aðra hverja helgi. „Ég vissi alltaf að ég ætti ekki að vera að gera þetta. Þetta var orðið þannig undir lokin að þetta var bara óvissuferð. Ég tók ákvörðun um að fá mér fyrsta drykkinn, og tilfinningin að finna á sér var það sem ég var alltaf að sækjast í, að vera áhyggjulaus, allt gaman og allt æðislegt, en ég náði aldrei að halda mér í því ástandi. Ég var alltaf blindfulla gellan, brjáluð eða grátandi. Það var bara annað hvort, eða bæði.“

Kidda svarfdal er gestur vikunnar í Fókus.

Lögreglan ráðlagði henni að kæra ekki ofbeldismanninn

Kidda ákvað að snúa við blaðinu eftir að hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás.

„Það voru einhverjir þrír gaurar að spjalla við mig á Nasa […] þeir voru greinilega á einhverju og ég var með prinsipp, ég prófaði aldrei dóp því ég var svo mikil prinsippkona,“ segir hún kímin.

„Ég drakk bara áfengi sem er náttúrulega mjög skaðlegt. Ég sagði eitthvað við þá, eða einn af þeim: „Æi, láttu mig í friði þarna dópistinn þinn.“ Og hann missti stjórn á sér og réðst á mig og rotaði mig í einu höggi. Hann kýldi mig í hausinn og var svo að sparka í mig í jörðinni, ég vissi það bara eftir á. Ég rankaði við mér og þá var búið að hringja á lögregluna og þeir farnir. Ég var náttúrulega í sjokki og gat ekki opnað munninn í marga daga eftir á.“

Kidda var ekki send á sjúkrahús. „Ég fór heim og talaði við lögregluna daginn eftir og lögreglan sagði við mig: „Áttu fjölskyldu?“ og ég sagði já, að ég ætti kærasta og barn. Hann sagði: „Ókei, þá myndi ég ekkert vera að kæra þetta.“ Ég spurði af hverju. Þá sagði hann að þessi maður væri með það mikið í kerfinu á sig að hann yrði á endanum handtekinn og ef ég færi á eftir honum þá ætti ég í hættu að hann kæmi á eftir mér.“

Kidda fylgdi ráði lögreglumannsins. „Ég hafði líka enga getu að halda einhverju svona til streitu,“ segir hún.

„Þegar ég sá menn líkjast honum marga mánuði á eftir fékk ég kvíðakast.“

Kidda Svarfdal.

Ætlaði að hefna sín

„Svo helgina þar á eftir, eins og þetta hafi ekki verið nógu slæmt, fór ég aftur á djammið. Og þá sá ég hann og vin hans á skemmtistað niður í bæ. Ég var full og ætlaði bara að hjóla í þá. Ég er 156-157 cm á hæð og ætlaði bara að fara í þá,“ segir Kidda.

Sem betur fer stoppuðu vinir hennar hana.

„Ég vaknaði daginn eftir og bara… mér er ekki viðbjargandi, ég bara ræð ekkert við mig. Þetta er svo ógeðslega óskynsamlegt. Ég hugsaði: „Ég á eftir að vera drepin, bara óvart eða eitthvað. Ég á eftir að rústa lífi mínu ef ég held þessu áfram.“ Þetta var í síðasta skipti sem ég drakk.“

Kidda hefur nú verið edrú í fjórtán ár. „Bestu ár sem ég hef upplifa,“ segir hún.

Kidda ræðir nánar um áfengisneysluna og líkamsárásina í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér, eða hlusta á Spotify

Fylgstu með Kiddu á Instagram og hlustaðu á hlaðvarpið hennar Fullorðins hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar
Hide picture