Bandaríska utanríkisráðuneytið birti í síðustu viku yfirlýsingu þar sem Rússar eru sagðir hafa notað efnavopnið „chloropicrin“ gegn úkraínskum hermönnum. Ef rétt reynist, þá er það brot á alþjóðlegum samþykktum um bann við notkun efnavopna.
Úkraínskir hermenn styðja þessa yfirlýsingu Bandaríkjamanna og segjast hafa orðið fyrir barðinu á umræddri gastegund en hún getur banað fólki. Ef efnið er hitað upp í 10 gráður veldur það köfnun og dauða.
Í yfirlýsingu Bandaríkjamanna segir einnig að Rússar hafi notað „táragas sem vopn í Úkraínu“ en það er einnig brot á samþykktum um bann við notkun efnavopna.
Reuters hefur eftir úkraínskum hermönnum að rússneskir hermenn hafi beitt „efnum sem líkjast táragasi“ í austurhluta landsins. Segja þeir að þetta valdi pirringi í augum og valdi ógleði og svima.
Reuters hefur eftir úkraínskum hermanni, sem hefur gælunafnið Ray“ að Rússarnir kasti handsprengjum með efnavopnum úr drónum. „Þetta er ekki banvænt en þetta er truflandi og maður verður óvígur. Það er mjög erfitt að sinna verkefnum þegar maður hefur andað þessu að sér,“ sagði hann.