Dómi yfir fatlaðri og hálfblindri konu í Englandi hefur verið snúið við en áður hafði konan, Auriol Grey, verið dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp. Málið hefur vakið mikla ytra en Daily Mail fjallar ítarlega um það í dag.
Grey var í göngutúr í fyrra í bænum Huntingdon í Cambridge-skíri í Englandi þegar hin 77 ára gamla Celia Ward kom hjólandi á móti henni á gangstéttinni. Grey varð logandi hrædd við að verða fyrir hjólinu, hafa lögfræðingar hennar sagt, og öskraði á Ward að koma sér af gangstéttinni og kom sömu skilaboðum á framfæri með áköfum handabendingum.
Ward hlýddi þessu með því að hjóla út á götuna en á vildi ekki betur til en svo að bíll kom á fleygiferð og klessti á hana. Ward var úrskurðuð látin á vettvangi þegar viðbragðsaðilar komu á slysstað.
Það vakti talsverða reiði þegar Grey var dæmd í fangelsi vegna málsins í mars í fyrra og ekki síður þegar tilraunum lögfræðinga hennar til að fá dóminn styttan, í ljósi fötlunar hennar og erfiðra félagslegra aðstæðna, báru ekki erindi sem erfiði.
Málinu var svo áfrýjað en þar tókst lögfræðingum hennar að sýna fram á að enginn illur ásetningur hafi legið að baki gjörðum hennar. „Ef að ágengar handabendingar eru ólöglegar þá væru 50 þúsund fótboltaáhangendur handteknir um hverja helgi,“ sagði lögmaður hennar fyrir dómi.
Niðurstaðan var því sú að um afar óheppilegt slys væri að ræða og Grey því laus allra mála.