Pole of Cold leiðangurinn var hugmynd þriggja einstaklinga sem höfðu óbilandi áhuga á að kynnast nýjum og ævintýralegum slóðum þar sem kuldinn er gífurlegur og daglegt líf ekki beinlínis eins og þau eiga að venjast. Þríeykið samanstóð af Felicity Aston, Gísli Jónssyni og Manu Palomeque en þau ferðuðust yfir 36 þúsund kílómetra á Land Rover Defender. Skipuleggjendur leiðangursins hlutu árið 2013 styrk frá Land Rover og Royal Geographical Society í Bretlandi til þess að draumurinn mætti verða að veruleika.
Leiðangurinn hófst í Bretlandi í nóvember 2013 og honum lauk 3 mánuðum síðar á Pole of Cold í norð-austur Síberíu sem er kaldasta byggða ból veraldar. Þrímenningarnir fóru við upphaf vetrarins í gegnum Evrópu og Asíu, tóku viðtöl við íbúa landsvæðanna sem þau hittu á leiðinni og tóku upp hljóð og ljósmyndir.
Fimmtudaginn 11. febrúar kl. 19:00 verður opnuð myndasýning frá þessum einstaka leiðangri í húsakynnum Arctic Trucks að Kletthálsi 3. Sýningin samanstendur af heillandi vetrarmyndum, hljóðupptökum frá umhverfinu og skemmtilegum viðtölum við íbúa útjaðars hins byggilega heims. Tilgangur sýningarinnar er að varpa ljósi á hvaða merkingu “kuldi” raunverulega þýðir og veita innsýn í sérkenni náttúrunnar á svo köldum svæðum en ekki síður til þess að gefa gestum nýja sýn á veturinn og lífsstíl fólks á þessum slóðum yfir köldustu mánuði ársins.
Felicity Aston, sem er skipuleggjandi leiðangursins, mun kl. 20:00 á fimmtudagskvöldið greina frá ferðinni í máli og myndum. Fyrirlesturinn er öllum opinn. Sjálf sýningin stendur til 4. mars og verður opin alla virka daga á opnunartíma verslunar Arctic Trucks.
Felicity Aston varð árið 2012 fyrsta kona í heimi til að fara á skíðum, ein og óstudd, þvert yfir Suðurskautslandið. Felicity hefur síðasta áratuginn leitt fjölmarga leiðangra á heimsskautssvæðum, fyrst sem vísindamaður en síðar sem landkönnuður. Hægt er að kynna sér betur feril Felicity Aston á heimasíðu hennar
Gísli Jónsson er sérfræðingur í akstri á köldum svæðum auk þess sem hann er einn reyndasti jeppamaður landsins. Hann hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra leiðangra hér heima og erlendis og hefur meðal annars ekið meira en 26 þúsund kílómetra á hásléttu Suðurskautslandsins. Hann bar ábyrgð á að halda Land Rovernum gangandi í nær 60 stiga frosti.
Manu Palomeque er ljósmyndari og kvikmyndagerðamaður en myndir eftir hann hafa reglulega birst í alþjóðlegum fréttamiðlum, svo sem The Guardian, The Telegraph og The New York Times.