Gary hafði þarna verið lykilmaður í KR en hann vann gullskóinn í efstu deild hér á landi tveimur árum fyrir skiptin til Víkings.
„Ég get sagt söguna af því af hverju ég var seldur, það veit þetta eiginlega enginn,“ sagði Gary í Chess After Dark.
„Á þessum tíma voru Milos (Milojevic) og Helgi Sigurðsson með Víking og Bjarni (Guðjónsson) og Gummi Ben með KR. Gummi Ben og Helgi Sig voru góðir vinir og ég held að Gummi hafi nefnt hvort þeir hefðu áhuga á mér. Helgi hefur sagt Milos og það næsta sem ég veit er að Víkingur leggur fram tilboð.“
Gary telur að KR hafi selt sig af fjárhagslegum ástæðum.
„Við klúðruðum árið 2015. Við vorum með svo góðan hóp og áttum að vinna tvennuna. Við vorum með dýrt lið þarna og það þurfti að losa einhvern. KR samþykkti tilboð frá Víkingi og Breiðablik. Þeir vildu ekki selja mig til Vals eða FH á þessum tíma.
Ég held þetta hafi snúist um peninga. Þeir reyndu að losa leikmenn á undan mér en það voru engin áhugasöm félög. Það var hægt að fá eitthvað fyrir mig, ég vann gullskóinn tveimur árum áður. Bjarni sagði mér að ef félagið myndi samþykkja tilboð þyrfti ég að fara. Þeir sóttu Hólmbert og Morten Beck. Eftir ellefu leiki voru þeir ekki komnir með mark, ég var markahæstur í deildinni og fór til Lilleström.“
Gary var spurður að því hvers vegna hann valdi Víking fram yfir Breiðablik.
„Breiðablik vildi ekki hafa ákvæði í samningi mínum um að ég fengi að fara í júlí. Víkingur bauð líka betri samning en þetta snerist ekki um það, þetta snerist um þetta ákvæði í júlí, ef ég fengi tilboð erlendis frá.“
Gary fékk einmitt tækifæri erlendis því hann hélt út til Lilleström í Noregi sumarið 2016. Einnig hefur hann spilað með Lokeren í atvinnumennsku. Á Íslandi hefur Gary, auk KR og Víkings, spilað með Val, ÍBV, ÍA, Selfossi og nú Víkingi Ólafsvík.