fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Hvað er uppstigningardagur?

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 9. maí 2024 07:00

Málverkið Uppstigning Krists, frá árinu 1897, eftir Þjóðverjann Fritz Von Uhde

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er uppstigningardagur og frídagur á Íslandi þótt að vissulega séu ekki allir í fríi. Einhverjir lesendur gætu verið að velta fyrir sér hvað uppstigningardagur eiginlega er og því ekki úr vegi að greina stuttlega frá því.

Stutta svarið er að á uppstigningardag er þess minnst að á þeim degi, samkvæmt Biblíunni, steig Jesús Kristur upp til himna til að sitja við hægri hönd guðs.

Uppstigningardag ber ávallt upp á 40 dögum eftir páska eða á fimmtudegi í fimmtu viku eftir páska og haldið er upp á hann í flestum kristnum löndum.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir meðal annars um uppstigningardag að hann sé einn fárra helgidaga kirkjunnar sem ekki hafi verið afnuminn þegar kaþólskum sið var skipt út fyrir þann lúterska á Íslandi, árið 1550. Elstu heimildir um sérstakan uppstigningardag séu frá síðari hluta 4. aldar, en fyrir þann tíma sé talið að haldið hafi verið upp á himnaför Jesú á hvítasunnunni. Eftir því sem útbreiðsla kristninnar varð meiri hafi hins vegar fjölgað sérstökum hátíðisdögum sem tengdust ævi Jesú. Uppstigningardagur hafi verið hátíðisdagur kirkjunnar hér á landi allt frá árinu 1200.

Enn fremur segir á Vísindavefnum að á Íslandi sé ekki þekkt nein sérstök þjóðtrú eða siðir tengdir uppstigningardegi, en í öðrum löndum hafi himnaför Jesú oft verið fagnað á gamansaman hátt. Fólk hafi þá frekar borðað fuglakjöt eða notað daginn til fuglaveiða. Einnig hafi þekkst að karlar lyftu glösum til að komast í sjöunda himin og líkja þar með eftir uppstigningu Jesú.

Hafi markað ákveðin endalok og nýtt upphaf

Þórhallur Heimisson prestur fjallar um atburði uppstigningardags, á vef Þjóðkirkjunnar, eins og greint er frá þeim í Biblíunni og minnir á að þeim sé lýst í fyrsta kafla Postulasögunnar. Samkvæmt henni horfðu lærisveinar Krists á hann stíga upp til himna og segir Þórhallur það hafa markað bæði ákveðin endalok fyrir lærisveinana en líka nýtt upphaf:

„Uppstigning Jesú til himins markaði ákveðin endalok fyrir lærisveinana. Þeir dagar sem þeir höfðu átt með Jesú eftir upprisuna á páskum voru á enda. Þeir höfðu haft hann hjá sér í bókstaflegri merkingu. Þeir höfðu getað talað við hann, snert hann, borðað með honum, hlustað á hann.  Hann hafði verið þeim nærri í upprisulíkama sínum. Nú var hann ekki lengur með þeim á þennan sama hátt. En þess í stað hét hann þeim að hann myndi ætíð vera nærri þeim í anda sínum, já nærri öllum þeim sem á hann tryðu og honum fylgdu. Einmitt þess vegna markaði uppstigningin nýtt upphaf fyrir lærisveinana.“

Eftirminnilegur uppstigningardagur

Þórhallur segir einnig frá upplifun sinni á uppstigningardag árið 1995 sem hann segir hafa verið afar eftirminnilega. Þá hafi hann starfað sem prestur í sænsku þjóðkirkjunni í úthverfasöfnuði í Stokkhólmi:

„Þar sem bjuggu meðal annars fjölmargir kristnir sýrlenskir flóttamenn er höfðu flúið ofsóknir heima fyrir og fundið skjól í Svíþjóð. Þennan morgun var messað við sólarupprás, kl. sex. Veður var með eindæmum gott, sól skein í heiði, og því var messað utan dyra á kirkjutorginu, við fuglasöng. Mikið fjölmenni sótti messuna, á þriðja hundrað manns.“

„En megnið af kirkjugestum voru úr röðum hinna kristnu sýrlensku innflytjenda, því Svíar sváfu á sínu græna eyra og nutu þannig frídagsins. Og það sem meira var, Sýrlendingarnir kunnu fæstir orð í sænsku, hvað þá að þeir skildu mína sænsku með mínum íslenska framburði.“

„En það kom ekki að sök. Öll messan var flutt á sænsku og Sýrlendingarnir tóku þátt í öllum liðum hennar, hlustuðu andagtugir á ræðuna og gengu allir til altaris – án þess að skilja orð. En sjaldan hef ég verið kvaddur af meiri hlýhug heldur en eftir þessa messu. Hver messugesturinn á fætur öðrum kvaddi mig með faðmlagi og kossi og fallegum sýrlenskum bænum, brosi og hlýju.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Í gær

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“