Reykjavíkurborg sendi frá sér fyrir stundu yfirlýsingu þar sem hnýtt var í innslag Kastljóss um umdeilda samninga borgarinnar við olíufélögin um byggingarrétt til þeirra á borgarlóðum gegn fækkun bensínstöðva.
Í innslaginu, sem var í umsjón Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur – sem gustað hefur um undanfarið, var meðal annars fullyrt að „Olíufélögin fengu með samkomulaginu heimild til að byggja 700 íbúðir í þessum fyrsta áfanga samninganna.“
Í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar er það tiltekið sem „alvarleg staðreyndavilla“ og svo í löngu máli reiknað út að um sé að ræða á bilinu 387-464 íbúðir miðað við gefnar forsendur.
Vísir birti nú fyrir stundu viðtal við Baldvin Þór Bergsson, ritstjóra Kastljóss, þar sem hann vísar því alfarið á bug. Þar vísar hann í fréttatilkynningu á vef Reykjavíkurborgar í tilefni af undirskrift samninganna við olíufélögin, 25. júní 2021, en þar er einfaldlega fullyrt að með þessari nýju samþykkt, sé í upphafi horft til 12 stöðva í íbúðarhverfum víðs vegar um borgina þar sem reisa má a.m.k. 500 íbúðir.
Neðar í greininni er svo minnst á að til vibótar við þessar lóðir á bensínustöðvunum sé samið við Haga um fjölorkustöð á Esjumelum og uppbyggingu á lóð við Stekkjarbakka 4-6 þar sem mögulega verða til uppbyggingarmöguleikar fyrir um 200-300 íbúðir.
Sumsé 700 til 800 lóðir samkvæmt tilkynningu borgarinnar sjálfrar.