Útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson, títt kallaður Óli Palli, ætlar ekki að horfa á Eurovision í kvöld. Og ekki um helgina heldur. Ástæðan er þátttaka Ísraels í keppninni.
„Það er Eurovison í kvöld. Við foreldrar og skólinn kennum börnunum okkar að allir eigi að fá að vera með í leik og engan eigi að skilja útundan. Það er bannað að meiða og segja ljótt og einelti er ekki í boði. Á sama tíma mætum við og tökum þátt í söngvakeppni með mesta og hræðilegasta hrekkjusvíninu – ekki bara í bekknum eða skólanum – heldur í öllum heiminum,“ segir Óli Palli í færslu á samfélagsmiðlum.
Í kvöld fer fram fyrri undanriðill þar sem Ísland tekur þátt. Á fimmtudag er annar undanriðillinn, en þá tekur einmitt Ísrael þátt. Svo er lokakeppnin á laugardagskvöld.
„Þetta hrekkjusvín er ekki að skilja útundan eða leggja í einelti – það er hreinlega að drepa börn í þúsundavís með sprengjum. Hrekkjusvínið er búið að smala fórnarlömbum sínum út í horn og er svo að gera sig klárt í blóðbað og barna og þjóðarmorð,“ segir Óli Palli. „Skilaboðin frá okkur fullorðna fólkinu eru þessi: Ef hrekkjusvínið er mjög stórt og sterkt þá er bara best að leyfa því að gera það sem það vill og kýs – annars gætum við sjálf lent í vandræðum.“
EBU, skipuleggjandi keppninnar, hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að leyfa Ísrael að taka þátt eftir innrásina á Gaza. Hefur stofnunin verið sökuð um hræsni í ljósi þess að Rússum var vikið úr keppni eftir innrásina í Úkraínu árið 2022. EBU hefur hins vegar gefið í og meðal annars bannað fólki að flagga palestínska fánanum á keppninni. Fáni Ísraels er hins vegar leyfður.
„Ég hef horft á Eurovison með báðum augum og hlustað með báðum eyrum í næstum hálfa öld en ég mun ekki fylgjast með Eurovison á neinn hátt í ár,“ segir Óli Palli og tekur undir orð Gísla Marteins Baldurssonar, samstarfsmanns síns á RÚV sem sagði að Eurovision snerist um stemningu og gleði og fyrir slíku væri hvorugu fyrir að fara í ár.
„Það eru samstöðutónleikar í Háskólabíó í kvöld fyrir börnin og fólkið Gaza sem ég ætla að fylgjast með í kvöld og styrkja,“ segir Óli Palli að lokum og bendir á miðasölu tónleikanna.