Þegar þriggja ára dóttir Ashley Cass byrjaði að tala um „skrímsli í herberginu sínu“ þá var Ashley ekki mikið að stressa sig á því og taldi að um ímyndun væri að ræða. Það reyndist þó nokkuð til í þessu hjá hinni ungu dóttur, sem kom þó aðeins í ljós þegar veggurinn var opnaður.
Fjallað er um málið á vef breska ríkissjónvarpsins, BBC, en Ashley og fjölskylda hennar búa í borginni Charlotte í Norður Karólínu fylki í Bandaríkjunum.
Átta mánuðum áður en veggurinn var opnaður byrjaði dóttir Ashley að tala um skrímslin sem hún heyrði í í herberginu sínu. Taldi Ashley að ímyndunaraflið væri að stríða henni og hún væri kannski að fá hugmyndir frá Pixar myndinni Monster´s, inc.
Lét hún dóttur sína fá vatnsbrúsa sem hún sagði að væri „skrímslasprey“ sem hún gæti fælt skrímslin í burtu með. Þetta hætti hins vegar ekki og dóttirin hélt áfram að tala um þetta.
Um átta mánuðum eftir að dóttirin ljáði máls á þessu tók Ashley eftir því að heilu sveimarnir af býflugum voru á flugi í kringum strompinn á húsinu þeirra. Hringdi hún í meindýraeyði sem kom og fann ástæðuna fyrir þessu. Tugþúsundir býflugna voru inni í veggnum hjá dótturinni.
Ashley lýsti þessu á TikTok síðu sinni. „Þegar dóttir þín hefur verið að heyra í skrímslum í herberginu sínu þá reyndust þau vera 50 þúsund býflugur suðandi,“ sagði hún í færslu.
Býflugnabúið og hunangið sem býflugurnar höfðu framleitt reyndist vera engin smásmíð. Vó það meira en 43 kíló. Talið er að býflugurnar hafi komist inn í gegnum strompinn og þaðan inn í vegginn í gegnum göt á hitalögnum. En býflugnabúið í veggnum hjá dótturinni var ekki það eina. Annað bú fannst innan í öðrum vegg hússins.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fjarlægi býflugnabú sem nær alveg frá gólfi að lofti,“ sagði Curtis Collins, meindýraeyðirinn sem kom á staðinn.
Þessi uppgötvun var ekki aðeins skelfileg fyrir Ashley og fjölskyldu hennar. Hún kostaði einnig sitt. Í samtali við BBC sagði hún að tryggingarnar myndu ekki borga fyrir þetta. Hún yrði að reiða fram um 20 þúsund dollara úr eigin vasa. En það er hátt í 3 milljónir króna.