Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Í henni kemur fram að á meðan þessi mikli óstöðugleiki ríkti hafi Júpíter og hinir gasrisarnir henst tilviljanakennt um sólkerfið og á sama tíma hafi orðið árekstur sem myndaði tunglið okkar.
Þessi mikli óstöðugleiki stóð yfir þar til pláneturnar „komu sér fyrir“ á þeim brautum sem þær eru á núna en það gerðist 60 til 100 milljónum ára eftir að sólkerfið varð til.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Science. Fram kemur að vísindamennirnir telja að pláneturnar, sem voru á stefnulausri ferð um sólkerfið, og þá aðallega Júpíter hafi hugsanlega raskað braut Theia, sem var frumreikistjarna á stærð við Mars, og hafi hún þá lent í árekstri við jörðina. Við þann árekstur hafi „brak“ þeyst út í geiminn, brak sem síðar varð tunglið.