Ákveðið hefur verið að hætta starfsemi skemmtistaðarins B5 í Bankastræti. Þetta kemur fram í tilkynningu eigandans, Sverris Einars Eiríkssonar.
Þetta kemur fram í færslu frá Sverri á Facebook. Þar segir hann:
„B5 Exit gæti maður sagt í gríni. Við höfum sem sagt ákveðið að einbeita okkur að rekstri skemmtistaðarins Exit í Reykjavík og höfum sagt skilið við Bankastrætið í góðri sátt við leigusala.
Við gerum þetta til að dreifa ekki kröftum okkar um of og stefnum á áframhaldandi gleði og gott gengi á Exit sem notið hefur gríðarlegra vinsælda í skemmtanalífi bæjarins.“
Báðum stöðunum var lokað í aðgerðum lögreglu fyrir þarsíðustu helgi, sem voru að kröfu ríkisskattstjóra. Exit hefur nú þegar verið opnað aftur, upplýsir Sverrir Einar í samtali við DV, en B5 hættir.
„Skatturinn baðst afsökunar á mánudagsmorgni og opnaði allt,“ segir Sverrir Einar. Vefversluninni Nýju Vínbúðinni var einnig lokað í þessum aðgerðum en var síðan opnuð aftur. Hótel Brim við Skipholt, sem Sverrir Einar rekur líka, er ennfremur í fullum rekstri en því hefur verið lokað nokkrum sinnum vegna leyfismála.