Aðalmeðferð í máli Kolbeins Sigþórssonar, fyrrverandi atvinnumanns og landsliðsmanns í knattspyrnu, sem ákærður hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn barni, verður þann 14. maí næstkomandi. Aðalmeðferð er hin eiginlegu réttarhöld í dómsmálum, þar sem vitni eru leidd fram og saksóknari annars vegar og verjandi sakbornings hins vegar flytja mál sitt.
Dóm ber að kveða upp innan fjögurra vikna frá lokum aðalmeðferðar og má því búast við að dómur falli í málinu fyrir miðjan júní.
Meint brot var framið þann 26. júní árið 2022. Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara er Kolbeinn sakaður um að hafa dregið niður nærbuxur stúlkunnar og strokið kynfæri hennar fram og til baka mörgum sinnum.
Samkvæmt heimildum RÚV hefur Kolbeinn neitað sök í málinu. Héraðssaksóknari krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd stúlkunnar er farið fram á miskabætur upp á þrjár milljónir króna.