Flest bendir til þess að aðgerðir hefjist næstkomandi fimmtudag á ótímabundnu yfirvinnubanns meðal alls félagsfólks Sameykis sem starfar hjá Isavia ohf. Á föstudag, frá klukkan 4 til 8, mun svo starfsfólk sem sinnir öryggisgæslu leggja niður störf. Frekari aðgerðir eru svo boðaðar á tímum þar sem mikil umferð er um flugvöllinn.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag gerir Sigurður Kári yfirvofandi aðgerðir að umtalsefni.
„Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við að launafólk berjist fyrir bættum kjörum. Hins vegar er mikilvægt að í þeirri baráttu beri stéttarfélögin og félagsmenn þeirra virðingu fyrir verkfallsvopninu, eins og lengst af var gert, en misbeiti því ekki. Þær verkfallsaðgerðir sem hér um ræðir eru skólabókardæmi um misbeitingu á verkfallsréttinum. Tilefni aðgerðanna og aðferðirnar sem til stendur að beita bera þetta með sér.“
Sigurður Kári segir að það sem er sérstakt við þessar verkfallsaðgerðir sé að skýrt hafi komið fram hjá forsvarsmönnum stéttarfélaganna að ekkert ósætti sé um launakjör fólksins sem er á leið í verkfall. Deilan snúist fremur um atriði sem hafi ekkert með störfin sem slík að gera, jafnvel um andrúmsloftið á vinnustaðnum.
„Að beita verkfallsréttinum við slíkar aðstæður er ekkert annað en misbeiting á honum, a.m.k. samkvæmt þeim vinnumarkaðsrétti sem Sigurður heitinn Líndal kenndi mér. Þetta blasir við þegar stéttarfélög telja sjálfsagt, af ekki meira tilefni, að grípa til tímabundinna aðgerða sem hafa það að markmiði að valda eins miklum usla og röskun og mögulegt er, og þar með gríðarlegu tjóni.“
Sigurður Kári bendir svo á að í þessu tilviki sé aðstaðan sú að þeir sem sitja uppi með skaðann af verkfallsaðgerðunum eiga enga aðild að kjaradeilunni og hafa engin tæki eða tól til að leysa hana.
„Þar á ég við þær þúsundir farþega íslensku flugfélaganna sem eiga leið um flugvöllinn og þau fyrirtæki sem þar starfa, þ.e. íslensku flugfélögin sem gera þaðan út sem og önnur fyrirtæki sem eru með starfsemi á flugvellinum. Það mikla tjón sem af þessu upphlaupi hlýst lendir á þeirra herðum.“
Hann segir að þar fyrir utan skuli enginn efast um að síendurteknar verkfallsaðgerðir sem hafa bein áhrif á ferðalög fólks til og frá Íslandi skaði orðspor landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Ferðamenn hafi takmarkaðan áhuga á því að verða strandaglópar hér til lengri eða skemmri tíma vegna verkfallsaðgerða.
„Skæruverkföll af þessu tagi, sem virðast því miður vera orðin árviss viðburður á Keflavíkurflugvelli, sýna að vinnumarkaðslöggjöfin frá árinu 1938 er fyrir löngu gengin sér til húðar. Hana þurfa stjórnvöld að endurskoða án tafar. Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sem þurfa að búa við slíka löggjöf er auk þess hvorki samkeppnishæft né boðlegt.“
Sigurður Kári segir að verði þessum boðuðu verkfallsaðgerðum ekki aflýst blasi við að stjórnvöld eigi að grípa inn í og koma í veg fyrir að þær komi til framkvæmda.