Benidorm hefur um árabil verið einn vinsælasti ferðamannastaður Spánar og hafa ófáir Íslendingar komið þar við í gegnum tíðina.
Breti sem kallar sig Wendall heldur úti vinsælli YouTube-síðu þar sem hann sýnir hið „raunverulega“ Bretland eins og hann orðar það. Benidorm er afar vinsæll ferðamannastaður á meðal ungra Breta og í myndbandi sem hann birti á dögunum varpar hann ljósi á þessar skuggahliðar Benidorm þar sem heimilisleysi virðist hafa aukist töluvert.
Í myndbandinu ræðir Wendall við breskan mann, Jonny að nafni, en sá heldur úti hjálparsamtökum fyrir fátækt fólk á svæðinu. Í hópi heimilislausra einstaklinga á Benidorm eru Bretar og heimamenn sem hafa lent í kröggum af ýmsu tagi. Hafast þeir til dæmis við í yfirgefnum byggingum á svæðinu.
Wendall heimsótti svo kofaþyrpingu sem þekkt er undir nafninu „Gypsy Road“.
„Hér eru bara yfirgefin hús þannig að sígaunar hér leigja heimilislausum þau fyrir 25 pund á viku. Fólk hefur þá allavega þak yfir höfuðið,“ segir hann. Heimilislausir hafa sumir í sig og á með því að safna sorpi og leita að verðmætum í því til að selja.
„Það er vissulega gott að þetta fólk hafi þak yfir höfuðið en ég get ímyndað mér að þetta sé ekki hreinasta umhverfi sem þú getur verið í,“ segir hann. „Hreinlætismál eru mikið vandamál og hér er rusl út um allt sem getur dregið að sér rottur og slíkt. Svo eru hótelin hérna hinum megin við götuna,“ segir hann og bendir á háhýsi þar sem hótel er starfrækt.
Skjólstæðingar Johnny, sem heldur úti fyrrnefndum hjálparsamtökum, eru að stóru leyti heimamenn en einnig Bretar sem hafa komið til Benidorm í frí og ekki snúið aftur heim.
Bent er á það að sumir hafi komið til Benidorm áður en kórónuveirufaraldurinn skall á til að vinna, vera í sólinni og breyta um umhverfi. Faraldurinn hafði hins vegar víðtæk áhrif á ferðamannastaðinn Benidorm eins og aðra ferðamannastaði. Fyrirtæki, einkum veitingastaðir, barir og hótel, þurftu að segja upp starfsfólki og í þeim hópi voru útlendingar.
Í þættinum ræðir Wendall við konu að nafni Jodie en hún segist hafa flutt til Spánar til að geta verið með kærustu sinni sem var dauðvona. Það hafi svo sett strik í reikninginn þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu og það hafi gert mörgum erfitt um vik að sækja um atvinnuleyfi. Jodie er í hópi þeirra sem njóta góðs af góðgerðasamtökum Johnny, segir hún að hún væri í enn verri stöðu ef ekki væri fyrir hann og hans hjálp.
Þátt Wendalls má sjá í heild sinni hér að neðan: