Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson vill vita hvað íslenska ríkið ætlar að gera til að endurheimta hundruð milljóna sem fyrrverandi ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, gaf stjórnendum hjá embætti sínu án heimilda. Þetta kemur fram í grein sem Vilhjálmur birtir hjá Vísi í morgun.
Vísar hann til máls samninga sem Haraldur gerði við aðstoðar- og yfirlögregluþjóna hjá embætti sínu, skömmu áður en hann lét af störfum. Með þessum gjörningi voru um fimmtíu fastar yfirvinnustundir færðar inn í dagvinnulaun viðkomandi starfsmanna. Þar sem lífeyrisréttur viðkomandi miðast við grunnlaun í dagvinnu þýddi þetta að réttur þeirra til eftirlauna hækkaði gríðarlega þar sem grunnlaun höfðu hækkað um 50 prósent með þessari tilfærslu. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, afturkallaði þessar hækkanir þegar hún tók við embætti. Ekki vildu starfsmenn sætta sig við þá lendingu og stefndu ríkinu fyrir dóm. Niðurstaða Hæstaréttar var að launahækkunin væri skuldbindandi fyrir ríkið þó að ljóst væri að þarna hafi um verulegan örlætisgerning verið að ræða.
Hæstiréttur tók fram að ákvörðun Haralds hafi ekki byggt á kjara- eða stofnanasamning. Ekki væri heldur að sjá að ákvörðun hafi verið gerð í samráði við Fjársýslu ríkisins, líkt og Haraldur hélt fram. Hér var um einhliða ákvörðun Haralds að ræða um næstum því 50 prósent hækkun grunnlauna án nokkurra stoða í kjara- eða stofnanasamning. Þetta var grundvallarbreyting á samsetningu launa sem Haraldur hafi í engu veitt viðhlítandi skýringar á. Hæstiréttur kallaði samkomulagið berum orðum „örlætisgerning“ og sagði ljóst að eini tilgangur þess var að hækka lífeyrisréttindi lítils hóps yfirmanna, sem voru að nálgast starfslok. Ákvörðun Haralds hafi því verið ólögmæt og hann farið út fyrir heimildir sínar sem forstöðumaður ríkisstofnunar. Hins vegar séu samningar skuldbindandi og ekkert benti til þess að þessi litli hópi yfirmanna hafi mátt vita að Haraldur hefði ekki heimild til að gera þessar breytingar á kjörum þeirra. Því var ríkinu gert að efna samningana, sem munu kosta á fjórða hundrað milljóna.
Vilhjálmur vísar til þess að í sératkvæði tveggja dómara Hæstaréttar sé talað um óvenjulegan örlætisgjörning Haralds á kostnað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
„Í ákvörðuninni fólst svo óvenjulegur örlætisgerningur af hálfu fyrrverandi ríkislögreglustjóra í þágu stefnda, en á kostnað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að stefndi mátti við undirritun samkomulagsins gera sér grein fyrir að fyrrverandi ríkislögreglustjóri færi með ákvörðuninni verulega út fyrir heimildir sínar til að breyta samsetningu launa og jafnframt til að skuldbinda áfrýjendur við þá ákvörðun til starfsloka hans.“
Örlætisgerningur einkennist af því að ekkert endurgjald komi komi frá viðtakanda slíks, enda um gjöf að ræða. Vilhjálmur veltir því fyrir sér hvort ríkið ætli að sætta sig við að hafa í rauninni gefið þessa rausnarlegu gjöf, eða leitast eftir því að sækja féð til þess sem raunverulega bar ábyrgð.
„Nú þegar Hæstiréttur hefur slegið því föstu að fyrrverandi ríkislögreglustjóri hafi gefið stefndu hundruð milljóna króna úr ríkissjóði í gegnum Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vaknar sú spurning hvað íslenska ríkið ætlar að gera til þess að endurheimta féð? Ég treysti að fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra svari því. Eða eru fjármunir ríkissjóðs fé án hirðis?“
Heimildin greinir frá því að hvorki dómsmála- né fjármálaráðuneyti hafi kallað eftir opinberri rannsókn vegna örlætisins og er það ekki heldur á borði Héraðssaksóknara. Heimildin segir að kostnaður ríkissjóðs vegna málsins slagi upp í hálfan milljarð.