Tveimur leikjum er lokið það sem af er kvöldi í Bestu deild kvenna.
Valur tók á móti Víkingi og lenti undir snemma leiks eftir mark Hafdísar Báru Höskuldsdóttur í upphafi leiks. Skömmu síðar jafnaði hins vegar Jasmín Erla Ingadóttir og rétt fyrir hálfleik kom Amanda Andradóttir Val yfir með marki af vítapunktinum.
Heimakonur gengu svo frá leiknum í seinni hálfleik. Kate Cousins og Jasmín komu þeim í 4-1 á fyrsta stundarfjórðungi hans. Nadía Atladóttir kom inn á og skoraði fimmta markið með flottum skalla. Hún fagnaði vel gegn sínu gamla liði.
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir bættu svo við mörkum áður en Selma Dögg Björgvinsdóttir minnkaði muninn í 7-2 úr víti í lokin. Urðu það lokatölur.
Valur er í efsta sæti deildarinnar með 9 stig en Víkingur er með 4.
Þór/KA tók þá á móti Þrótti og vann sterkan sigur. Sandra María Jessen heldur áfram að raða inn mörkum og gerði hún tvö í sitt hvorum hálfleiknum.
Caroline Murray minnkaði muninn fyrir Þrótt í lok leiks og lokatölur 2-1 fyrir Þór/KA, sem er með 6 stig. Þróttur er með 1 stig.