fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Sakamál: Hvað varð um Allyzibeth? – Var að fara að birta óþægilegar afhjúpanir

Pressan
Laugardaginn 4. maí 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannshvörf vekja ávallt óhug og ekki síst þegar þau eiga sér stað í litlum samfélögum þar sem glæpir eru fátíðir. Þegar hin 22 ára gamla Allyzibeth Lamont skilaði sér ekki heim til sín kvöld eitt seint í október árið 2019 og mætti ekki í vinnuna, á skyndibitastaðinn Local Substation No. 9, daginn eftir, var hvarf hennar tilkynnt til lögreglu. Á Local Substation var Allyzibeth eftirlæti viðskiptavina fyrir hlýlega framkomu og lipurlega framreiðslu á samlokum sem smurðar voru á staðnum.

Þessir atburðir urðu í Jonestown, um það bil 25 þúsund manna bæ í uppsveitum New York fylkis. Allyzibeth bjó hjá bestu vinkonu sinni og barni hennar og vinkonan varð afar áhyggjufull þegar Allizybeth hafði ekki skilað sér heim um nóttina. Hún fékk staðfest á skyndibitastaðnum, hjá samstarfskonu Allyzibeth, að hún hafði farið burt frá staðnum þegar vaktinni hennar lauk kl. 18. Hún hefði síðan ekki mætt til vinnu um morguninn eins og hún átti að gera. Vinkonan hringdi þá í lögreglu.

Lögreglan sendi út tilkynningu um hvarf konunnar og margir tóku þátt í leit að henni. Eftirgrennslanir lögreglu leiddu í ljós að ekkert benti til þess að að Allizybeth hefði ætlað að fara í ferð, því síður gaf eitthvað tilefni til þess að hún hefði ástæðu til að láta sig hverfa.

Kærasti og fyrrverandi kærasti skoðaðir fyrst

Þegar grunur vaknar hjá lögreglu um að einhver hafi verið myrtur beinist athyglin yfirleitt fyrst að þeim sem viðkomandi hefur átt í nánu sambandi við, enda er í þeim þrönga hópi oftar en ekki að finna morðingjann. Allizybeth átti kærasta að nafni William Dening og ræddi lögregla stuttlega við hann. Hann var þá sjálfur að taka þátt í leit íbúa að Allizybeth á svæðinu. Ekkert við William eða ferðir hans vakti grunsemdir, en fyrrverandi kærasti hennar, Tyler, vakti hins vegar meiri áhuga lögreglu. Tyler, sem var með nokkuð langan lista afbrota að baki, hafði áreitt Allizybeth eftir að sambandi þeirra lauk og tveimur mánuðum fyrir hvarf hennar hafði hann reynt að brjótast inn á heimili hennar, og þurfti að kalla til lögreglu.

Tyler reyndist hins vegar vera með allgóða fjarvistarsönnun og sannfærðist lögregla fljótt um að hann hefði ekki átt þátt í hvarfi Allyzibeth.

Þegar lögregla leitaði upplýsinga hjá vinnuveitendum Allizybeth hjá Local Substation No. 9 vöktu viðbrögðin undrun og tortryggni. Mennirnir létu einfaldlega ekki ná í sig. Þeir voru ekki á staðnum og svöruðu ekki í síma. Loks tókst þó að draga rekstrarstjórann, hinn 35 gamla James Duffy, í yfirheyrslu.

Myrt með hafnaboltakylfu og hamri

James sagðist ekki hafa hugmynd um hvar Allizybeth gæti verið niðurkomin og sagðist vera í öngum sínum yfir hvarfi hennar, enda væri hún góður vinur og pottþéttur starfsmaður sem hann væri núna búinn að missa. James virtist í annarlegu ástandi í yfirheyrslunni og viðurkenndi hann opinskátt að hann væri fíkniefnaneytandi. Lögreglumenn fengu sterklega á tilfinninguna að hann byggi yfir meiri vitneskju í málinu en hann lét uppi og hvöttu hann til að gera hreint fyrir sínum dyrum. James virtist haldinn þeirri ranghugmynd að hann gæti unnið sér inn friðhelgi með því að veita upplýsingar og á meðan lögreglumennirnir hétu honum engu slíku þá gerðu þeir ekkert til að leiðrétta þessar ranghugmyndir.

James játaði síðan að hafa orðið Allizybeth að bana. Hafði hann barið hana með hafnaboltakylfu og hamri. Morðið var framið bakatil í húsnæði skyndibitastaðarins. Sá sem skipulagði þennan hrottalega glæp var eigandi staðarins, Georgios Kakavelos. Hann var 52 ára gamall Grikki sem búið hafði lengi í Bandaríkjunum og rak nokkra skyndibitastaði svipaðrar gerðar. Kakavelos átti í miklum fjárhagsvandræðum og var rekstur hans undir sérstöku eftirliti skattyfirvalda.

James upplýsti lögreglu um að Allizybeth hafi verið orðin þreytt á því að fá alltaf greitt undir borðið, auk þess sem hún fékk ekki greidd umsamin laun að fullu. Virtist Kakavelos stunda það að greiða starfsfólki sínu svart. Allizybeth krafðist þessa að fá launaseðla og að laun hennar væru uppi á borðinu. Hún hótaði því að afhjúpa skítabrall vinnuveitandans á samfélagsmiðlum, sem og að tilkynna framferði hans til verkalýðsfélags.

James sagði að Kakavelos hefði fengið sig til að myrða Allizybeth og koma líki hennar fyrir í grunnri gröf á víðavangi skammt frá þjóðvegi. Fyrir þetta fékk hann greitt nokkuð yfir 1.000 dali.

James Duffy (t.v.) og Georgios Kakavelos

Launamál voru ástæðan

Félagarnir skuggalegu þrifu staðinn hátt og lágt eftir ódæðið en yfirskin hreinsunarinnar var leki úr gosvélinni sem þeir framkölluðu sjálfir. Þar með liti ekki út fyrir að reynt hefði verið að fela sönnunargögn með því svo gott sem sótthreinsa staðinn. Kakavelos fór út í Walmart og keypti sterk hreinsiefni. Síðan var staðurinn skrúbbaður vandlega til að afmá verksummerki um þetta hryllilega morð.

Lík Allyzibeth fannst eftir ábendingar James Duffy, í grunnri gröf á víðavangi nálægt þjóðveginum. Áverkar á líkinu voru í samræmi við lýsingar hans á ódæðinu.

Kakavelo neitaði sök og sagðist hafa komið að þegar James var að myrða Allizybeth. Hann hafi óttast hann þar sem James var vopnaður og vegna ótta hafi hann láti til leiðast að hjálpa til við að koma líki Allizybeth fyrir í grunnri gröf.

Hvorki lögregla né dómari lögðu trúnað á framburð Grikkjans. Saksóknari var fullviss um að hann hefði skipulagt morðið og ráðið James Duffy til verksins.

James Duffy gerði samning við ákæruvaldið og vitnaði gegn Kakavelo í skiptum fyrir vægari dóm. Var hann dæmdur í 18 ára fangelsi.

Kakavelo var hins vegar dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn. Glæpur hans þótti ótrúlega svívirðilegur og það hlýtur að teljast sjaldgæft að manneskja sé myrt vegna launadeilu, hvað þá með jafnskipulögðum og kaldrifjuðum hætti og hér átti sér stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi