Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur opinberað niðurstöður skoðanakönnunar stofnunarinnar um fylgi forsetaframbjóðenda.
Í tilkynningu á Facebook-síðu stofnunarinnar segir að hún hafi kannað afstöðu þátttakenda á netpanel stofnunarinnar til forsetakosninganna 2024. En í færsluninn er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunarinnar fyrir þá fjóra frambjóðendur sem mældust með meira en 5% fylgi.
Samkvæmt könnuninni sem gerð var á tímabilinu 22.-30. apríl var Katrín Jakobsdóttir með hæst fylgi frambjóðenda til forseta Íslands eða 29,9%.
Halla Hrund Logadóttir var í öðru sæti samkvæmt könnuninni með 27,6%.
Ekki var marktækur munur á fylgi Katrínar og Höllu Hrundar.
Baldur Þórhallsson var í þriðja sæti með tæpan fjórðung eða 23,6%.
Fylgi Jóns Gnarr mældist töluvert lægra en fylgi þriggja efstu eða 7,4%.
Gögn könnunarinnar voru nánar greind eftir kyni, aldri, kjördæmi og stjórnmálaskoðunum þátttakenda.
Katrín sækir fylgi sitt einkum til kjósenda ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Fylgi Katrínar er mest meðal 60 ára og eldri. Kynjahlutfall fylgjenda er nokkuð jafnt. Katrín sækir fylgi sitt frekar til kjördæma á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðarinnar.
Halla Hrund höfðar heldur meira til eldri aldurshópa kjósenda en yngri. Halla sækir fylgi sitt til kjósenda allra flokka en þó minnst til Vinstri grænna. Hærra hlutfall karla en kvenna myndu kjósa Höllu Hrund. Fylgi Höllu Hrundar er meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Stuðningur við Baldur er mestur frá yngri aldurshópum. Kjósendur allra flokka styðja Baldur til forseta en stuðningur er minnstur frá kjósendum Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Mun hærra hlutfall kvenna en karla styður Baldur. Fylgi Baldurs dreifist nokkuð jafnt yfir öll kjördæmi landsins.
Jón Gnarr sækir sitt fylgi aðallega til yngri kjósenda og Pírata. Fleiri karlar en konur styðja Jón Gnarr.
Þátttakendur voru einnig spurðir „Ef alþingiskosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“
Samkvæmt könnuninni nýtur Samfylkingin mest fylgis 25,4%. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næst á eftir með 19%. Þá mælist Miðflokkurinn með þriðja mesta fylgið eða 13,4%. Framsóknarflokkurinn mælist fjórði stærsti flokkurinn með 10% fylgi.
Flokkur Fólksins, Viðreisn og Píratar mælast með svipað fylgi eða um 7-8%. Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist með undir 5% fylgi.
Könnunin var send út á netpanel Félagsvísindastofnunar. 2.638 manns svöruðu könnuninni. Af þeim tóku 93% afstöðu til spurningarinnar um hvern þau myndu kjósa til forseta ef kosið yrði í dag.