Áfram eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi í Sundhnúksgígaröðinni en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Landsris við Svartsengi hefur haldist jafnt undanfarna daga ef horft er til síðustu vikna. Áður hafði komið fram að hægt hefði á landsrisi. Þrýstingur heldur áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu. Óvissa er um framhaldið en líkur eru á því að kraftur eldgossins sem nú stendur yfir í sundhnúksgígaröðinni aukist.
Í tilkynningunni segir ennfremur:
„Skjálftavirkni hefur aukist á Sundhnúksgígaröðinni síðustu daga. Um er að ræða smáskjálfta sem eru líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.“