En þrátt fyrir að pakkinn sæti fastur í þinginu þá sendu bandarísk stjórnvöld Úkraínu vopn, þó ekki mjög mikið en samt sem áður vel nothæf. Þessu var haldið vel leyndu þar til nýlega.
Meðal þess sem Úkraínumenn fengu voru langdræg ATACMS-flugskeyti og virðist sem þeir hafi byrjað að nota þau um miðjan apríl. Þá virðist slíkum flugskeytum hafa verið skotið á rússneskan herflugvöll á Krímskaga.
Karsten Marrup, yfirmaður lofthernaðardeildar danska varnarmálaskólans, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að þessi tegund flugskeyta geti dregið allt að 300 kílómetra og sé skotið frá bílum og því séu þau mjög hreyfanleg.
Hann sagði að þetta auki valmöguleika Úkraínumanna og um leið valdi þetta Rússum höfuðverk. Hann sagðist sannfærður um að Úkraínumenn muni nota þessi flugskeyti til að ráðast markvisst á birgðastöðvar Rússa langt að baki víglínunni eða höfuðstöðvar hersins, þar sem herforingjar safnast meðal annars saman.
„Ef maður notar þau til árása á höfuðstöðvar eða þvíumlíkt, þá væri það frábært því rússneska hernum er stýrt frá toppnum,“ sagði hann.