Reglugerðardrög heilbrigðisráðherra hafa verið lögð fram til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda sem varða meðal annars hertar reglur til útgáfu læknisvottorða. Læknum er meinað að kvitta upp á sjúkdóma og annað án þess að vita sönnur á því og mega aðeins kvitta upp á atriði sem varða þeirra sérþekkingu. Drögin voru fyrst lögð fram fyrir rúmu ári og voru harðlega gagnrýnd.
Reglugerðin gerir heilbrigðisstarfsfólki skylt að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna. Þessi gögn megi fjalla um það eitt sem heilbrigðisstarfsfólk veit sönnur á og getur staðfest. Gæta þurfi að orðalagi svo ekki sé hætta á misskilning eða mistúlkun.
Heilbrigðisstarfsfólk geti heimilda í vottorði eða álitsgerð um grundvöll afstöðu þeirra og greina á milli frásagna annarra og eigin athugunar. Eins beri að forðast staðhæfingar um óorðna framvindu um ástand sjúklings.
Eins má finna í reglugerðinni skyldu heilbrigðisstarfsfólks til að verða við beiðni stjórnvalda um vottorð þeirra sem eiga í samskiptum við hið opinbera.
Drög að reglugerð sem þessari voru áður lögð fram fyrir rúmu ári síðan. Þá barst fjöldi umsagna og athugasemda. Sagði í nokkrum stuttum umsögnum frá einstaklingum:
„Þetta er brot á friðhelgi einkalífsins, brot á stjórnarskrárvörðu friðhelgi okkar! Hvernig dettur ykkur þetta í hug??“
„Með því að samþykkja þessa reglugerð hafið þið brotið flestar greinar laga um mannréttindi í stjórnarskrá Íslands, eins Nuremberg siðareglurnar, – Genfarsamkomulagið, -Helsinki læknasáttmálann, -Mannréttindasáttmála Evrópusambandsins og Persónuverndarlög“
„Þetta er brot á friðhelgi einkalífs brot á stjórnarskrá orðum og friðhelgi okkar ég segi nei og aftur nei“
„Ég mótmæli harðlega að það standist stjórnarskrá og almenn mannréttindi að færa vald til heilbrigðisstarfsmanna til að sýsla með heilsufarsupplýsingar mínar sem annarra. Minn líkami mitt val“
„Mér er spurn hvert þið eruð komin, á að fara að tattúa á okkur númer eins og Hitler og nasistar gerðu við gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni. Eruð þið orðin snar geðveik þarna? Við eigum að vera friðhelg samkvæmt stjórnarskrárvörðum rétti okkar sem einstaklingar. Ég segi nei við svona voðaverkum“
„Ég efa að þessi drög standist lög. Það ríkir trúnaður milli læknis og sjúklings sem yrði brotinn með þessari reglugerð. Heilsufar einstaklinga er og ætti ávallt að vera einkamál“
Reglugerðin hefur nú gengist undir lítils háttar breytingar sem helsta varða orðalag og uppstillingu málsgreina innan einstakra ákvæða. Helsta breytingin er sú að nú er sérstaklega tekið fram að heilbrigðisstarfsfólki ber ekki að votta frásögn sjúklings af fyrri veikindum, heldur horfi til eigin samskipta við sjúkling og þess sem kemur fram í sjúkraskrá.
Eins og sést í umsögnunum hér að ofan var reglugerðin umdeild þegar hún var lögð fram í fyrra, þá einkum hvað varðar skyldu til lækna og annarra að gefa út vottorð um heilsufar sjúklinga að beiðni stjórnvalda. Eins bárust umsagnir frá fagstéttum þar sem finna mátti athugasemdir sem helst vörðuðu stöðu þeirra sem þurfa að láta meta líkamstjón og óljósa skilgreindu á milli vottorða og álitsgerða.
Fram kom að tilgangur reglugerðarinnar væri að draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk sem nú ver ómældum tíma í pappírsvinnu. Með reglugerðinni væri hægt að draga úr þessu álagi og gefa heilbrigðisstarfsfólki rými til að sinna sjúklingum. Þó gerðu flestar fagstéttir athugasemdir um að betur þurfi að huga að máli áður en reglugerð yrði samþykkt og mögulega fá aðkomu fleiri fagstétta að vinnunni heldur en bara heilbrigðisstétta.
Til að skoða dæmi um breytingar sem hafa orðið milli reglugerðardraga má nefna skilgreiningar á vottorði og álitsgerð:
Áður:
Nú:
Eins sagði í fyrri drögum að heilbrigðisstarfsmaður mætti votta það eitt sem hann hafi sjálfur staðreynd, en nú má eins byggja á sögu viðkomandi í sjúkraskrá. Eins sagði áður að heilbrigðisstarfsmanni væri skylt að gefa út vottorð um sjúkling sinn ef beiðni um það berst, en nú er tekið fram að slík beiðni geti aðeins komið frá sjúklingi sjálfum.