Þetta snýst um „GPS-truflun“ sem felur í sér að truflanir verða á GPS-sambandi eða þá að það lokast algjörlega fyrir sendingarnar á ákveðnu svæði. Þetta er að sjálfsögðu mikil ógn við farþegaflugvélar og aðrar flugvélar og getur í versta falli orðið til þess að flugmenn verða nánast að fljúga blindandi á þeim svæðum þar sem þessu „vopni“ er beitt.
Flugmenn nota GPS til að rata. Ef merkjasendingarnar eru truflaðar á ákveðnu svæði geta flugmennirnir til dæmis misst yfirsýnina yfir hvar vélin er eða fengið viðvaranir frá aðvörunarkerfi flugvélanna um hættu á árekstri þrátt fyrir að engin hætta sé á ferðum.
The Sun segir að frá því í ágúst á síðasta ári hafi 2.309 vélar frá Ryanair og 1.368 frá Wizz Air lent í erfiðleikum með GPS-kerfið yfir Eystrasalti. Þess utan hafa 82 flug frá British Airways, 7 frá Jet2, 4 frá easyJet og 7 frá Tui lent í álíka vandræðum yfir Eystrasalti.
Flugfarþegar þurfa ekki að óttast um flugöryggið þótt vélarnar lendi í truflun af þessu tagi því flugmenn hafa ákveðnar vinnureglur til að fylgja þegar svona gerist og vegna þess að vélarnar skipta sjálfkrafa yfir í annað flugsöguleiðarkerfi ef GPS-kerfið dettur út.
Það að trufla GPS-kerfið er oft notað á átakasvæðum til að verjast árásum dróna eða flugskeyta sem nota GPS til að finna skotmark sitt.
Truflanirnar í Eystrasalti eru umfangsmiklar og ná yfir stórt svæði og það þarf mikinn tækjabúnað til að geta valdið þeim.
Leyniþjónusta danska hersins staðfesti við Jótlandspóstinn að mörg tilfelli GPS-truflana hafi komið upp í Eystrasalti á síðustu mánuðum og að venjulega séu það aðilar á vegum einstakra ríkja sem valda svona umfangsmiklum truflunum.
Rússar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á þessum truflunum og Vesturlönd hafa ekki sakað þá um að valda þeim en slóðin liggur samt sem áður til Kreml. Má þar nefna að 3. október 2022 var ekkert GPS-samband í loftrýminu yfir Danmörku í 15 mínútur, á sama tíma voru tvö rússnesk herskip í danskri landhelgi.
Milli jóla og nýárs 2023 urðu aftur miklar truflanir á kerfinu í Eystrasalti en á þeim tíma var rússneski flotinn við æfingar við Kalíningrad og var eitt af markmiðum æfingarinnar að trufla fjarskipti og flugleiðsögukerfi „óvinarins“.
Í gær tilkynnti Finnair að flugfélagið felli niður allt flug sitt til Eistlands næstu daga í kjölfar þess að tvær flugvélar þess neyddust til að hætta við lendingu í Eistlandi um helgina eftir að GPS-sambandið datt alveg út á svæðinu.