Þjófnaður á olíhukálfi (tanki) á Ásbrú hefur leitt til þess að maður sem þar býr, eða í nágrenninu, þarf núna að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann fékk í Noregi. Landsréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að maðurinn skuli afplána 605 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann fékk í Noregi.
Málsatvik eru þau að fyrir örfáum dögum var tilkynnt um þjófnað á olíukálfi í Ásbrú í Reykjanesbæ. Í tanknum voru 1000 lítrar af olíu. Sá sem tilkynnti um afbrotið til lögreglu var með staðsetningarbúnað á kálfinum og náði að staðsetja hann hjá heimili hins grunaða, en þess má geta að hann á sér langa sögu afbrota, m.a. fíkniefnamál, ofbeldisbrot og þjófnaðarmál.
Þegar lögregla kom á vettvang voru þrjár manneskjur innandyra og voru þau öll handtekin. Var búið að fela olíukálfin fyrir aftan húsið og setja dúk yfir hann til að hylja hann. Eftirlitsmyndavél á svæðinu sýndi að bíl sem maðurinn hafði til umráða hafi verið ekið þarna síðustu nótt með umræddan olíutank í eftirdragi. Bíllinn var ekki á númerum. Við húsið voru margir hlutir sem lögreglan grunar að séu þýfí. Veittu lögreglumenn því athygli að fíkniefnaleifar og áhöld til fíkniefnaneyslu voru á borðinu í stofu hússins.
Frá þessu segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Þar segir einnig að verðmæti þýfisins sem fannst sé talið hlaupa á milljónum.
Við húsleit fundust síðan gögn um að maðurinn hafi hlotið fimm ára fangelsisdóm í Noregi árið 2021. Hann hafi hins vegar fengið reynslulausn um miðjan mars síðastliðinn. Átti hann þá eftir að afplána 605 daga af refsingunni.
Þar sem maðurinn er núna undir sterkum grun um að hafa framið alvarlegt afbrot er það niðurstaða dómsvaldsins að hann eigi að afplána eftirstöðvar refsingarinnar sem hann fékk í Noregi. Ekki kemur hins vegar fram í úrskurðunum hvort hann eigi að afplána refsinguna hér á landi eða í Noregi.
Sjá nánar hér.