Heimsferðir, Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir hafa gengið frá samningi við Neos flugfélagið, sem mun sinna leiguflugi fyrir ferðaskrifstofurnar til allra áfangastaða í sumar og fram á næsta ár. Ný og glæsileg flugvél með WI-FI-tengingu mun verða notuð í flugi ferðaskrifstofanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimsferðum. Segir einnig að væntanlegur flugtímar verði fjölskylduvænri, brottfarir frá Keflavík kl. 9 á morgni og lent í dagsbirtu á áfangastað. „Heimflugin eru sömuleiðis miðuð að því að gera heimferðina þægilega fyrir fjölskyldur,“ segir einnig í tilkynningunni og ennfremur þetta:
„Flugin í vor og sumar verða til Alicante, Almeria, Krítar, Verona og Tenerife. Þá verður einnig flogið til Zagreb, Split og Portúgal. Í haust bætast við margir spennandi áfangastaðir eins og t.d. Sikiley og Lecce á Ítalíu, Budva í Svartfjallalandi, Punta Cana í Karabíska hafinu og Kanarí.
Einnig verða í boði ferðir frá Akureyri til Tenerife, Alicante og Calarbria á Ítalíu. Auk þess er í boðð borgarferð frá Egilsstöðum til Verona.
Á sama tíma var gerður samningur um sölu á 2.000 sætum til ítalskra ferðaskrifstofa og mun þetta opna möguleika á aukningu ítalskra ferðamanna til Íslands, en Alpitours, stærsta ferðaskrifstofa Ítalíu, mun annast sölu sætanna.“