Landskjörstjórn hefur úrskurðað um framboð þeirra þrettán einstaklinga sem skiluðu inn framboðum og tilheyrandi meðmælalistum. Af þessum þrettán voru framboð ellefu einstaklinga úrskurðuð gild en tvö framboð úrskurðuð ógild. Þessir tveir einstaklingar hafa 20 klukkustunda frest til að kæra úrskurðinn en að öllu óbreyttu verða frambjóðendur til embættis forseta Íslands í kosningunum 1. júní ellefu en þeir hafa aldrei verið svo margir. Frambjóðendurnir eru:
Arnar Þór Jónsson
Ásdís Rán Gunnarsdóttir
Ástþór Magnússon Wium
Baldur Þórhallsson
Eiríkur Ingi Jóhannsson
Halla Hrund Logadóttir
Halla Tómasdóttir
Helga Þórisdóttir
Jón Gnarr
Katrín Jakobsdóttir
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
Þegar mest var voru yfir 80 manns að safna meðmælum til framboðs og því ljóst að minnihluti þeirra mun verða á kjörseðlinum.
Framboð Kára Vilmundarsonar Hansen og Viktors Traustasonar voru úrskurðuð ógild. Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar tjáði Vísi að í öðru framboðinu hafi aðeins níu meðmælum verið skilað og í hinu þá hafi vantað heimilisföng meðmælenda, kennitölur og skort verulega á að nægilegur fjöldi væri.