Ragga heldur úti vinsælli Facebook-síðu þar sem hún deilir allskonar fróðleik sem margir geta tileinkað sér.
„Það er mikilvægt að kunna að biðjast afsökunar þegar við höfum gert eitthvað rangt. Ef við erum alltaf sein í hittinga. Erum alltaf á sjálfshátíð í samskiptum við aðra. Svörum skilaboðum eftir dúk og disk. Þá þurfum við að sýna iðrun með orðum en aðallega með breyttri hegðun.En alltof oft segjum við SORRÝ þegar við þurfum ekki að taka ábyrgð á gjörðum eða orðum,“ segir Ragga og bætir við að þegar „æi, sorrý með mig“ sé fyrsta setningin í flestum samtölum lækki það sjálfstraustið og grefur undan sjálfsvirðingunni.
„Þú afsakar þig í bak og fyrir svo enginn dæmi þig eða sé fúll. Manneskjugeðjun á rætur í lágu sjálfsmati, óöryggi í samböndum, lélegu sjálfstrausti og ótta við höfnun. Orð eru öflug. Tungumálið sem við notum um okkur sjálf mótar sjálfsmyndina,“ segir Ragga sem mælir með því að skipta orðinu sorrý út.
„Prófaðu að skipta út SORRÝ-inu fyrir TAKK. Í staðinn fyrir að gera þig smærri, sýndu frekar þakklæti. Við þurfum að læra að við megum taka rými. Að við eigum líka skilið að ást og stuðning. Að við erum ekki byrði á öðrum. Við erum ekki vesen. Réttu úr bakinu, ýttu hökunni fram og úsaðu út jákvæðri orku og finndu hvernig sjálfsmyndin eflist og sjálfstraustið keyrist upp í rjáfur.“