Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi hefur farið með himinskautum í skoðanakönnunum og virðist nú eiga mun meiri möguleika á því að bera sigur úr býtum í forsetakosningunum 1. júní en raunin virtist vera fyrir skömmu. Halla Hrund ræðir framboð sitt í viðtali við Frosta Logason í þættinum Spjallið og þar vísar hún því á bug, sem heyrst hefur í umræðunni, að helsta ástæðan fyrir framboði hennar sé sú að til standi að leggja starf orkumálastjóra niður.
Hluti viðtalsins er öllum aðgengilegur í kynningarstiklu á Youtube. Í upphafi stiklunnar spyr Frosti Höllu Hrund um viðbrögð hennar við fullyrðingum um að hún sé í raun of hæf til að gegna embætti forseta og ætti fremur að halda sig við sérgrein sín, orkumál, þar sem það væri betra fyrir Ísland að hún gætti hagsmuna þjóðarinnar á því sviði:
„Auðvitað horfi ég á það þannig að ég er búin að vera að vinna að ákveðnum verkefnum í starfi orkumálastjóra sem að tengjast almannahagsmunum. Orkumálastjóri hefur ekki tækifæri til að breyta lögum en ég hef kannski talað öðruvísi um málaflokkinn heldur en kannski forrennarar mínir í starfi. Ég mun nýta rödd mín á sama hátt í víðara samhengi og nýta hana líka í samhengi við menningu, menntun og önnur svið samfélagsins til þess að magna upp okkar tækifæri, ekki bara á Íslandi heldur líka að heiman.“
Halla Hrund segir að hún vonist til að störf hennar sem orkumálastjóri og þau gildi sem hún hafi lagt áherslu á þar séu gott veganesti til að þjóna þjóðinni í hlutverki forseta.
Vék Halla Hrund næst að þeim breytingum sem til standa á skipulagi stofnana á sviði orkumála. Hún segir framboð sitt ekki vera bein viðbrögð við þeim:
„Síðan hafa verið alls konar umræður. Það er auðvitað frumvarp fyrir þinginu um að sameina stofnanir, um að leggja niður starf orkumálastjóra. Ég hef fengið þá spurningu: „Er það ástæðan fyrir því að þú sækist eftir þessu embætti?“ Svarið mitt þar er það að sækjast eftir því að takast á við það þýðingarmikið hlutverk fyrir þjóðina eins og að sinna hlutverki forseta Íslands er auðvitað allt önnur ákvörðun heldur en einhverjar hrókeringar stjórnmálamanna í lagabreytingum.“
„Ég er að bjóða fram krafta mína af því mig langar einlæglega til að takast á við nútíð og framtíð Íslands í samvinnu við fólk um allt land og ég held að við eigum svo mikið inni og ef að við látum okkur málin varða þá verði framtíðin sannarlega okkar.“
Halla Hrund leggur einnig áherslu á að hún líti svo á að forsetaembættið sé ekki flokkspólitískt. Hún segist vilja horfa til sem þess sameini þjóðina og bregðast þannig við stækkandi gjám í íslensku samfélagi:
„Ég held að við þurfum að halda dálítið í það að við erum öll í sama liði og draga okkur saman.“
Hún segir einnig að forsetinn þurfi að vera hafinn yfir dægurþras, ekki vera tengdur tilteknum hagsmunahópum en vera tilbúinn til að taka erfiðar ákvarðanir.
Stiklan úr þættinum er aðgengileg í heild sinni hér fyrir neðan: