Fylgi Höllu Hrundar Logadóttur mælist nú 29% en fylgi Baldurs Þórhallssonar mælist 25%. Fylgi Katrínar Jakobsdóttur mælist 18%.
Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Prósent gerði fyrir Morgunblaðið og blaðið skýrir frá í dag.
Halla Hrund hefur þannig tekið forystuna í kapphlaupinu um Bessastaði en Morgunblaðið bendir á að ekki sé tölfræðilega marktækur munur á henni og Baldri.
En stóru fréttirnar verða að teljast að fylgi Katrínar mælist nú 18% en mældist 24% í síðustu viku.
Fylgi Jóns Gnarr mælist 16% og fylgi annarra frambjóðenda er enn minna.
Könnunin var gerð frá þriðjudegi fram á sunnudag. Á þeim tíma duttu tveir frambjóðendur út úr kapphlaupinu og þrír bættust óvænt við. Ekki var spurt um þá í könnuninni.