Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og forsetaframbjóðandi, segir að örvænting sé hlaupin í það sem hún kallar valdastéttina, vegna uppgangs Höllu Hrundar Logadóttur, orkumálastjóra, en ný könnun Maskínu fyrir Stöð 2 sýnir Höllu Hrund í efsta sæti, fyrir ofan Katrínu Jakobsdóttur, fráfarandi forsætisráðherra.
Neikvæð umfjöllun um forsetaframbjóðendur hefur verið nokkur undanfarin sólarhring. Morgunblaðið greindi í morgun frá því að Karen Kjartansdóttir, sem vinnur fyrir framboð Höllu Hrundar, hafi gegnt störfum fyrir Orkustofnun (OS) eftir að kosningabarátta Höllu byrjaði. Karen hafi hins vegar farið í leyfi frá OS frá og með gærdeginum.
Undanfarið hefur einnig borið á umfjöllun um afstöðu Baldurs Þórhallssonar, sem lengi vel hefur verið efstur í skoðanakönnunum um fylgi frambjóðenda, til Icesave-málsins á sínum tíma. Athygli vakti er fram kom í gær að Baldur segist ekki muna hvernig hann greiddi atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-málið.
Steinunn tengir þetta saman og líka þau tíðindi að Friðjón R. Friðjónsson hafi verið ráðinn til starfa við framboð Katrínar Jakobsdóttur. Steinunn segir að niðurstaða nýjustu skoðanakönnunarinnar, sem sýndi Höllu Hrund í efsta sæti, hafi farið fyrir brjóstið á valdastéttinni:
„Íslenskur almenningur sér í gegnum þetta. Þó valdastéttin haldi annað. Örfá orð um hvernig lesa skal kosningabaráttu þeirra sem gera tilkall til valdsins.
Niðurstaða skoðanakannana gærdagsins fóru mjög fyrir brjóstið á Íslenskri valdastétt. Hin unga Halla Hrund skýst nú fram úr öðrum frambjóðendum. Nú skulu allir líka meðvitaðir vera um að ráðning Friðjóns til framboðs Katrínar Jakobsdóttur lýsir örvæntingu. Friðjón sem er besti vinur Bjarna Benediktssonar er tekinn til starfa og verkin skulu menn læra að sjá, þekkja og afskrifa strax sem áróður.
Nú á til dæmis að gera það tortryggilegt að Karen Kjartansdóttir kosningastjóri Höllu Hrundar, nú starfsmaður í leyfi frá OS hafi verið að leggja á ráðin með vinkonu sinni Höllu Hrund áður en sú síðarnefnda gaf kost á sér í embættið. Að gera Karenu tortryggilega mun nú beina athygli frá því sem er að gerast innan OS. Því hinsvegar skulu landsmenn fylgjst vel með. Það er alvörumál!“
Steinunn segir ennfremur:
„Baldri er brigslað um það að ljúga þegar hann segist ekki muna hvað hann kaus í Icesave. Er hann ekki bara að segja satt? Hannn tjáði sig á sínum tíma um málið, þá ábyrgðarlaus stjórnmálafræðingur og það hefur líka verið gert tortryggilegt. Um málið stendur enn styr um hvað rétt var eða rangt. Sagan löngu eftir okkar daga mun dæma það.“
Pistilinn má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér að neðan: