Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson, sem rekur meðal annars skemmtistaðina Exit og B5 sem og netfyrirtækið Nýju vínbúðina, var handtekinn í gær og leiddur út í járnum af lögreglumönnum. Árvökull lesandi náði mynbandi af atvikinu sem lesendur geta séð hér fyrir neðan. Vísir greindi fyrst frá málinu.
Skattayfirvöld létu innsigla áðurnefnda skemmtistaði Sverris Einars í vikulok. Handtaka athafnamannsins tengist umræddu máli en í gær sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði lokun B5 réttmæta en að misskilningur væri uppi varðandi rekstur Exit.
„Rekstur B5 í Bankastræti hefur verið þungur eftir að til lokunar kom í kjölfar yfirgangs og afskipta lögreglu sem kvartað hefur verið yfir til lögreglu. Beiðni skattayfirvalda um lokun á staðnum er því lögmæt og ekki gerður ágreiningur um hana. Staðurinn hefur enda verið lokaður um nokkurn tíma. Unnið er að því að greiða úr þeim málum og stefnt að opnun aftur í maí,“ sagði í tilkynningunni frá Sverri.
Rekstur Exit og Nýju vínbúðarinnar tengdist hins vegar öðru rekstrarfélagi og þar væri ekkert upp á reksturinn að klaga, að sögn Sverris Einars. Var hann á því að leyst yrði úr því máli í snarhasti og að þá var hann bjartsýnn á að B5 myndi hefja rekstur að nýju innan tíðar.